Ég hef verið að lesa mér svolítið til um ranghugmyndir og ofskynjarnir, af vissum ástæðum sem tengjast afkomu. Maður getur orðið nokkuð vel að sér um ýmsa hluti, svo sem sálfræði og geðlækningar, án þess að áhugi komi til. Það borgar sig að vera lifandi þátttakandi í íslenskum veruleika.
Það minnti mig á að fyrir nokkrum dögum varð ég fyrir nokkru sem getur eiginlega ekki verið annað en ofskynjanir. Ég var staddur í biðröðinni við barinn á Kaffi Klaufalæk, þar sem við á botninum höldum til og tölum saman og málfrelsi ríkir á meðal okkar sem hvergi annars staðar er til. Þá fannst mér sem snöggvast sem einhver klappaði þrívegis á öxlina á mér. Í þrígang, ég taldi. Ég hafði ekki fyrir því að líta til hliðar til að athuga hver væri á ferð þar sem ég vissi vel að viðkomandi, sem er rithöfundur, er ekki til. Ef hann væri til væri það full ósvífið af tilverunni að veita honum tilvist, án þess að biðja mig leyfis. Undan klappinu kom stingandi verkur og ávæningur af brennisteinsfnyki af vinstri öxl minni.
En staðfastur leit ég ekki til hliðar og tók ekki undir orð sem hefðu, ef viðkomandi væri til, getað hljóðað upp á svo mikið sem: „Blessaður“. Ég hef sjálfsvirðingu. Ég horfði beint áfram. Án þess að blikna. Til þess að fá mig til að líta til hliðar þarf fólk að svartalágmarki að vera til. Og þar á ofan er algerlega útilokað að tilveran láti einhvern vera til sem grípur til svo ómerkilegra bragða að láta eins og hann ég eigi að vera bara hress — hvað segir kallinn? Ertu ekki bara hress? — þegar ég hefði, ef viðkomandi rithöfundur væri til, skrifað um hann allhvast í mars, svo hvasst að ekki verður undan því vikist að svara málefnalega og með rökum og hverju því sem kann að vera til sem kalla má réttlætingu, sem er ósennilegt að sé. Ekkert slíkt reyndist til, fremur en mig grunaði, og hann ég verður ekki kveðinn í kútinn með einhverri froðu, einhverju sennilega yfirlætislegu klappi á öxlina. Fólk tekur afleiðingum orða sinna og gjörða en þegir ella alveg.
Annað hvort er fólk til eða ekki. Það er enginn millivegur til.
Þannig að ég ekki aðeins hristi þetta af mér heldur hugsaði ég að þeir væru fleiri rithöfundarnir sem hefðu ekki heilsað mér í mörg ár og mér bæri engin skylda til að heilsa þeim á móti, á móti einhverju sem hreint ekki átti sér stað. Sjálfsagt hefur frosið á viðkomandi feisið og ég sá ekki hvað varð af honum. Hann bara hvarf. Hefur enda sjálfsagt óskað sér hvert sem er, bara óskað sér burt, „hvert sem er, bara í sem allra firrstar firðir.“ Ég hugsaði að ég gæti látið munnvatn fylgja kveðjuleysi mínu næst. Eða reyndar hugsaði ég það ekki, vinkona mín ráðlagði mér það síðar í framhjáhlaupi. Hún er ein fárra um það í sinni stétt að hafa dómgreind og rýnigáfu. Það er dýrmætt að þekkja fólk eins og hana. Ég hef engu að tapa. Ekki hún heldur.
Í sömu andrá spratt á fætur gagnrýnandi og heilsaði mér. Ég hafði séð hann fyrr, þegar ég átti leið á klósettið, en ákveðið að vera ekkert að vekja athygli hans á mér og óvefengjanlegri og óþægilegri tilvist minni en kinkaði ábúðarfullur til hans kolli til merkis um að ég viðurkenndi tilvist hans, sem ég geri. Þótt mér þóknist hún kannski ekki með öllu.
Ég er gangandi vera með augu og eyru og hendur og axlir — og dómgreind og skynbragð. „Sem neysluvarningur er ég lögvernduð einkaeign mín“.