Í frétt á íslenskum miðli er þess getið að regnbogafánar hafi verið skornir niður við bensínstöð í Öskjuhlíð og sagt að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist, margir regnbogafánar við margar bensínstöðvar hafi verið teknir niður á undanförnum árum og séu þetta skipulögð skemmdarverk sem beinist gegn hinsegin fólki. Og ekki bara við bensínstöðvar heldur líka við kirkjur.
Hvernig vita fjölmiðlarnir hver tilgangur skemmdarverkanna er? Staðreyndin er sú að þeir hafa ekki hugmynd um það. Af hverju eru regnbogafánar skornir niður við beinsínstöðvar og kirkjur en ekki til dæmis við bækistöðvar hinsegin og kynsegin fólks eða nærtækari staði?
Getur það verið að þeim sem skeri niður fánanna mislíki einfaldlega hvernig óviðkomandi réttindabarátta er notuð í þágu annars vegar olíufyrirtækis og hins vegar kirkjunnar, sem hefur ekki beinlínis getið sér gott orð á undanförnum öldum fyrir víðsýni? Getur verið að þetta séu einmitt skemmdarverk sem beint er gegn þeim sem stunda svokallaðan „regnbogaþvott“? Er einhver veruleiki á bakvið táknmynd bensínstöðvar um stuðning eða er hún innantóm sýnd? Birtist hún í starfsmannastefnu, fjárframlögum eða hreinlega bara hvergi? Er þetta svipað og fyrirtæki sem gera nákvæmlega ekki neitt til að breyta vöru sinni til umhverfisvænni vegar annað en að flagga innistæðulausum grænfánum og slíkum stimplum — grænþvotti — að helberu skrumi? Ljúga í raun að neytandanum að varan sé umhverfisvæn án þess að aðhafast neitt?
Hvað hafa bensínstöðvar með kynhneigð að gera? Ekkert. Að skera niður fána við bensínstöð felur í sér að skera niður fána við bensínstöð, ekkert annað. Bensínstöðin verður enginn sérstakur málsvari kynsegin fólks fyrir vikið og það er allsendis óvíst að það hafi ekki einmitt verið einhver úr þeirra röðum sem framdi verkið. Hver vill láta flagga fyrir sér á bensínstöð við hlið bensínstöðvarfána?
Það er nefnilega til fólk úr öllum röðum samfélagsins sem finnst bensínstöðvar ekkert sérstaklega jákvæðir staðir. Og hefur ekki áhuga á að láta bendla sig við þær með alhæfingu um hóp og órökrænum venslunum hans við bensínstöðvar.
Það eina sem má ímynda sér að bensín hafi með fána að gera er að kannski sé til svakaleg maskína, bensínknúin þvottavél, yfirgengilegt nötrandi ferlíki, sem þvoi á gríðarlegum hita og á svakalegum yfirsnúningi með drageitruðu þvottaefni og slæðingi af bensínregnbogum sem myndast á blautum malbiksplönum í bland við geislavirkt mýkingarefni og sé vélin einmitt gjarnan notuð í regnbogafánaþvott.
Þannig upplitast regnbogafáninn í þvotti og verður litlaus dula sem táknar ekki neitt, barasta hreinlega nákvæmlega ekkert.
Kannski er slík vél bara uppdiktað skens en óbeit á regnbogaþvotti er ekki ólíklegri skýring á þessum fánaniðurhífingum á bensínstöðvum en hver önnur.