„Réttritun“

„Réttritun“ innan gæsalappa? Ef hverju í ósköpunum? Er ekki réttritun bara réttritun og ekkert við því að segja?

Það sem ég var að hugsa var að ekki eru allir rithöfundar góðir í „stafsetningu“. Fjandans, ég gerði það aftur. Setti gæsalappir utan um jafn einfaldan hlut og stafsetningu. Sumir rithöfundar eru arfaslæmir í stafsetningu og það er eitthvað allt annað en vandaður frágangur texta sem gerir þá góða, sem drífur þá áfram. Sumir rithöfundar eru jafnvel skrifblindir en hafa samt svo fantagóð tök á tungumálinu og blæbrigðum þess að fáir ná öðru eins.

Þetta er spurning um tegund hæfileika. Ég veit af reynslu af að vinna með hönnuðum að það er mjög algengt að fólk með sérlega gott myndauga sé bæði les- og skrifblint svo af ber. Þess vegna eru ráðnir prófarkalesarar. Eiginlega er það spurning um algert prinsíp að ráðinn sé prófarkalesari hjá sérhverjum þeim sem fæst við texta og vill láta taka sig alvarlega. Sjálfur get ég ekki einu sinni tekið alvarlega auglýsingu á vöru sem gæti vakið áhuga minn ella ef í henni er slæm beygingarvilla. Það merkir í mínum huga að kastað er til höndunum við verkið og það merkir sennilega að kastað er til höndunum á öðrum stigum vöruframleiðsunnar líka.

Kannski er þetta hjá rithöfundum spurning um ólíka hugsun. Ég veit að margt fleira getur spilað inn í og ég veit að flest bókaforlög eru með góða prófarkalesara þannig að maður sér þetta ekki, eða á ekki að sjá það (stundum verður misbrestur á), nema þegar höfundurinn skrifar eða talar í öðru samhengi.

Ég get ekki heldur tekið með öllu alvarlega þá kenningu hinna hámenntuðu fjöldoktoruðu mannúðarmálfræðinga að allt sé rétt ef rétt sé á litið. Og þó nær markið nokkuð langt: Mér langar merkir einfaldlega ekki það sama og: Mig langar. Á er meira en blæbrigðamundur, það er merkingarmunur. Hann getur verið stéttbundinn og hann getur tengst þeirri tegund hugsunar sem viðkomandi hefur ræktað með sjálfum/sjálfri sér.

Samt er ekki ástæða til að setja gæsalappir utan um réttritun. Þegar öllu er á botninn hvolft er sumt rétt og annað rangt og hlutverk prófarkalesara að sjá til þess að rétt sé rétt. Það er ekki spurning um fullvissu gagnvart heilbrigðum efa og afstæðishyggju, það eru prófarkalesararnir sem laga viðtengingarháttinn, og viðtengingarháttur er tjáning óvissunnar.