Réttttrúnaðarkirkjan

Það hafa kannski ekki allir veitt því athygli en Rússneska rétttrúnaðarkirkjan er með útibú í Reykjavík. Sagði ég útibú? Kannski væri nær að segja kirkju. Þó er þetta einhver minnsta kirkja í heimi, svo lítil að það er varla pláss til að skipta um skoðun í henni, og er það vel við hæfi. Kirkjan stendur við Mýrargötu, neðan Nýlendugötu.

Nú eru Rússar ekki vinsælir á Íslandi en stríð þeirra í Úkraínu er í þann mund að breytast í vígbúnaðarkapphlaup þar sem mestu skiptir að hafa sem mest af gervigreind á valdi sínu og að láta gervigreindina um að taka ákvarðanir um hvort fólk skuli drepið eða ekki, ásamt ábyrgðinni. Mannshugurinn komi hvergi nærri. Þetta er því að þakka að Bandaríkin hafa veitt Úkraínu hergögn af þessu tagi. Það eru til vélhundar, sem gagnast vel við að þefa uppi fólk sem orðið hefur undir snjóflóði og ekki síður til að drepa börn, sem reyndar er leyfilegt samkvæmt stríðslögum þótt samviska hinna mennsku komi jafnan í veg fyrir slíkt, alkunnugt er að í Mexíkó senda mafíósar drengi í hverfi hinna mafíósanna til þess að drepa einhvern í trausti þess að enginn drepi börn. Stríð sem slíkt fer að komast á nýtt stig og það eru ekki bara til drónar sem drepa heldur eru í vinnslu svermir af drepandi drónum. Í náttúrunni er svermur af fuglum aðdáunarvert fyrirbæri og ósigrandi og jafnvel oddaflug gæsa er nokkuð sem maðurinn hefur ekki náð að líkja eftir — hver hugur hugsar sjálfstætt en þó í samræmi við aðra huga sem ein heild sé.

Hvað varðar mig um þessa rétttrúnaðarkirkju við Mýrargötu? Ekki neitt nema hvað ég er að hugsa um að mæta þangað af og til, ef það er opið, og biðjast fyrir. Að því er mér skilst er húsinu hróflað þarna upp í þeim tilgangi einum að merkja lóðina sem borgin hefur úthlutað Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, samkvæmt þeim lögum um trúfrelsi sem gilda í landinu og úthlutun lóða til trúfélaga, enda eru um 700 manns skráðir í félagið.

Aldrei þessu vant varðar Rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna ekkert um stríðið í Úkraínu og tómt fleipur að tengja þetta tvennt saman. Hitt er aftur nokkuð ljóst að ef Úkraínuher er jafn vel gervigreindarvopnum búinn og hermt er verður brátt um hernaðaraðgerð Pútíns þar í landi. Er það fagnaðarefni? Já, en hitt er áhyggjuefni að þessi sama gervigreind er einn sólarhring að búa til formúlur að þeim mannskæðustu sjúkdómum sem nokkru sinni hafa litið dagsljósið í sögunni, og það á venjulega Mac-tölvu. Eitt sinn var haldin ráðstefna og efnavopn bönnuð í stríðslögum. Það þyrfti að halda aðra eins ráðstefnu um gervigreind í hernaðarskyni.

Verst er að svo fáir hafa áhuga að taka þátt í slíkri ráðstefnu að þeir myndu rúmast í Rússneskju rétttrúnaðarkirkjunni í Reykjavík.