Röntgen lætur bíða eftir sér. Maður situr á bráðamóttöku í um sex klukkutíma með úlnliðsbrotinn son sinn og það má heita vel sloppið. Það er búið að setja upp skilti, eða plakat, þar sem fólk er beðið að ausa ekki svívirðingum yfir starfsfólk, beita það ofbeldi eða hafa í hótunum við það. Auðvitað gerir maður ekkert af þessu en það fer ekki hjá því að maður velti fyrir sér hvað það sé við íslenska kerfið sem geri þetta að verkum. Alla þessa bið.
Sumir trúa því fullum fetum sem frá læknum kemur um þetta efni en af hverju ætti maður að láta niður falla krítíska hugsun eftir hentisemi? Nú þekki ég til dæmis sérmenntaðan lækni sem býr úti á landi því hún fær hvergi vinnu sem læknir þótt hún sé með góða og gilda menntun sem slíkur frá landi sínu, sem er ekki Ísland. Læknar höfðu betur í kjaradeilu við ríkið fyrir fáum árum. Þeir eru á góðum launum og ekki alveg laust að sumir þeirra séu svolítið hofmóðugir. Hvílir mest á þeirra herðum að eiga í samskiptum við sjúklinga? Nei, það er mest á könnu láglaunastétta, sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga sem margir hverjir eru ekki talandi á íslensku og það ber við, til dæmis á dvalarheimilum aldraðra, að þeir eru látnir sjá um framkvæmdir sem eru hrein og bein mannréttindabrot og ekkert annað. Læknar láta sig þetta litlu skipta því þótt þeir kunni að vera vel menntaðir, menningarsinnaðir og vænsta fólk, sem oft starfar líka í einkageiranum og vísar þá sjúklingum umsvifalaust á sjálft sig, er svo að sjá sem þeir hafi sumir hverjir aldrei heyrt minnst á mannréttindi, alþjóðlega sáttmála þar um og hvað lögfræðin hefur til þeirra mála að leggja.
Hvers vegna ætti ekki að hafna alfarið næstu kjarabaráttu íslenskra lækna, segja þeim að fara bara úr landi eins og þeir hóta og ráða úkraínska lækna á einu bretti í þeirra stað?
Hvað sem því líður fengum við ekki bara bið heldur líka það sem ég er alfarið á móti því að kalla „þjónustu“ — þjónustuvæðingin ríður ekki við einteyming — og vil miklu frekar kalla sínu eðlilega nafni, læknisaðstoð. Gips og fagleg vinnubrögð. Ekki öskruðum við Benni á neinn og þurfti ekki plakat til.