Sagan er lygi. Að nánast öllu leyti. Hún er hugarórar þeirra sem hafa farið með sigur af hólmi eða ímynda sér í dag, þar sem þeir skrifa söguna, að þeir muni nánast örugglega fara með sigur af hólmi. Þá skiptir engu þótt til þess þurfi þeir að sýna af sér tækifærismennsku, óheiðarleika, tuddaskap og uppspuna. Þeir eru illa haldnir af takmarkalausri metnaðargirnd og vilja sigra, hvað sem það kostar. Sannleikurinn kemur hvergi að máli, þeir líta á þetta eins og að skrifa „narratívu“, abstrakt fyrirbæri þar sem hver frásögn er keimlík þeirri næstu og jafnsönn, munurinn er aðeins að maður málar sjálfan sig upp sem sigurvegara og rægir hinn.
Sagan er skrifuð af sigurvegurunum jafnharðan, og af þeim sem ætla sér að verða sigurvegarar, jafnt þótt þeim sé glötunin búin. Því þetta geta verið illmenni og þrá í öllu falli sigur, hvað sem hann kostar: Þetta eru sigurvegarar. Þannig verður það algert aukaatriði að Japanir hafi fyrst og fremst haft óbeit á Kínverjum, sem óæðri kynstofni, og helst viljað smíða ríki í herteknum hluta Kína fyrir gyðinga, sem þeir tóku fagnandi menningu sinni og tæknivæðingu til framdráttar, gyðinga sem þeir álitu æðri kynstofn eins og sig sjálfa, í trássi við vilja Þjóðverja (það gyðingaríki á þeim stað hefði betur orðið), og það verður aukaatriði að í þeir sem ólust upp á nítjándu öld höfðu illvirki Englendinga á nýlendutímanum í fersku minni og þeir sáu sem var, áróður Englendinga í Englandi var engu skárri en áróður nasista. Ekki svo að skilja að ég réttlæti það síðarnefnda en voðaverk Leopolds Belgíukonungs í Kongó voru hryllileg og illvirki Englendinga og ránsdeildir um víða veröld voru það sem gaf eitthvað í aðra hönd og með því gátu þeir byggt helstu byggingar sínar í London þar sem göturnar eru fullar af húsum og söfnum sem eru rán.
Ég mun lifa, segja framgjörnustu rithöfundarnir þótt þeir ættu að vita mætavel að hending og heppni ræður hvað lifir og hverju má fá framgengt með frekju, heiftrækni, langrækni og hefnigirni og hverju ekki, hversu klíkutengdir sem þeir eru. Enginn hefur í raun minnstu hugmynd um hvað lifir. Og stundum er eins og sannleikur og réttlæti hafi þar hönd í bagga, hinum frekustu og velgengdarbeiskustu til stakrar armæðu.
Tannhjól tímans méla hægt, ofurhægt, en þau méla smátt.