Samkeppni

Samkeppni smýgur inn á öll svið tilverunnar, þar með talda listina, og samvinnan víkur. Svo mjög að sjálf samkenndin verður að samkeppnisgrein og sá sem mesta samkennd sýnir hefur sigrað, svo mjög sem það angar af „doublespeak“ Orwells.

Í samkeppni er allt leyfilegt og fólk keppist við að lofa gæði samkeppninnar sem slíkrar og dylja með skrauthvörfum að hún dragi fram það versta sem hugurinn geymir. Eldforn og manneskjuleg gildi víkja fyrir því sem varla er hægt að kalla annað en barbarisma, ef réttilega skal nefna. Þó er kjarni listarinnar og þar með bókarinnar í andstöðu við samkeppni. Maður skyldi spara hrakspárnar um stöðu bókarinnar þar sem hún verður undir í samanburði við aðra miðla en halda sig við kjarna og eðli: Bókmenntir eru ekki samkeppnisgrein og ef maður lítur svo á hefur maður ekkert fram að færa.

Hafi bókmenntir yfirleitt eitthvert samfélagslegt gildi er það anarkískur gneisti af uppbyggilega bölsýnni von.

En þannig hefur það alltaf verið. Engu skiptir hvort samkeppnisumgjörðin umlykur eitthvað sem ber í sér glóð af sannkallaðri samkennd, von og samvinnu.

Engu skiptir þótt allt sé búið fyrir nokkru síðan. Hinn exístensíalíski Sysifos heldur áfram að velta steininum upp hlíðina. Hinn staki Mersol, Útlendingur Camus, heldur áfram að sjá ljósið af hnífnum sem hafið endurvarpar frá sólinni, tveimur helmingunum af nafni hans, Mer og Soleil. Og einsemd hins frjálsa manns.