Sendingar

Það er eitthvað við mig sem veldur því að ég hef alla tíð fengið slæðing af nafnlausum sendingum. Síðasta daginn sem símskeyti voru við lýði fékk ég símskeyti, ég veit ekki frá hverjum. Viðkomandi óskaði mér til hamingju með eitthvað, guð má vita hvað. Ekki hef ég heldur hugmynd um hver sendi mér bók um Austur-Skaftafellssýslu eftir Einar Ólaf Sveinsson. Reyndar komst ég að því mörgum árum seinna hver var á ferð þegar ég fékk sendan pennastokk merktan afa mínum sem ég nauðaþekkti frá bernsku en ég læt þess ógetið hver það var, ég er ekki skvíler. Fyrir nokkru fékk ég lítið kort sem var svo vandlega pakkað inn í plast og límt fyrir að það fyrsta sem mér kom til hugar var að það hlyti að innihalda miltisbrand. Ég íhugaði að setja upp hanska og íklæðast asbest-galla áður en ég opnaði það en ákvað að það væri kannski óþarfi. Enda kom í ljós að þetta var undurfallegt þakkarkort fyrir þýðingu mína á Pizarnik.

Og svo gott ef það var ekki í dag eða gær eða einhvern tíma á þarsíðustu öld fékk ég enn eina sendinguna. Að þessu sinni er það bók. Hún er dulnefnd. Og eins og Pétur postuli sagði: Ekki þekki ég manninn. Ég hugsa að öll þessi skilaboð og allar þessar sendingar séu undir ákveðnum en þó ekki of sterkum áhrifum frá heilögum Anþrax og mest við hæfi að vitna í sálminn sem helst er sunginn í Kirkju heilags Anþrax.

Samstarfsverkefni þeirra John Cale og Terry Riley, Church of Anthrax, er fjandi merkilegt en þó kom mér á óvart að fregna að það er ekki John Cale sem syngur dægurlagavænsta hlutann af verkinu, og eina sungna lagið, „The Soul of Patrick Lee“, heldur maður að nafni Adam Miller.

Hann syngur nákvæmlega eins og John Cale.

Mér hefur alltaf heyrst hann nefna nafnið Adam Miller í laginu, líka þegar ég hélt að Cale syngi það. En hann segir víst, alla vega samkvæmt bókstafnum og textasíðum: „And the miller never showed her / a face that didn´t know.“

Kannski samdi Adam Miller lagið, ég veit það ekki. Eina platan hans heitir: Who Would Give His Only Song Away.