Sigurvegararnir

Liðin eru nokkur ár frá því að staðan í Bandaríkjunum var sú að þrír ríkustu Bandaríkjamennirnir áttu meiri auð en neðstu 50%, eða 160 milljón manns.

Þessi misskipting hefur færst talsvert í aukana frá því árið 2017 þegar þetta var staðan.

Nokkrar hræður, 1-3% bandarísku þjóðarinnar, á meira en allur þorri hennar samanlagður.

Þeir eiga meira en þeir hafa nokkuð við að gera sem réttlæti slíkt misrétti, þeir eiga svo mikið að þótt þeir borðuðu kavíar og kampavín í hvert mál og lifðu lengur en allan tíma risaeðlunnar á jörðinni tækist þeim ekki að koma öllum sínum auði í lóg. Á meðan svelta neðstu prósenturnar, búa á götunni, fá aldrei neinn sjens í lífinu, fá aldrei að vera kúl og aldrei að spila á gítar og sjá aldrei neinn vott af velgengni og deyja svo úr vosbúð og hungri, skorti á heilbrigðisþjónustu, eða leiðast út í glæpi og fá að dúsa í einhverjum grimmúðlegustu fangelsum heims í landi er með stærstu prósentu í heimi á bakvið lás og slá. Litlu skiptir hvort það er í Bandaríkjunum eða í ríkjum í Suður-Ameríku sem lúta stjórn vellauðugra glæpagengja.

Ísland eltir Bandaríkin mest af Norðurlöndum. Á meðan brauðmolakenningin er guðsorðið og þeir fátæku eiga að vera þakklátir fyrir þá fáu brauðmola sem hrökkva af borði hinna ríku, þeirra sem „verðskulda“ auð sinn sökum hæfileika sinna, að eigin mati, fáum við að hlusta á Öskubuskusögur og Kolbítssögur eins og hver önnur ævintýri þar sem ólíklegasta fólk sprettur upp úr engu og skarar fram úr á sínu sviði, öllum að óvörum, eða lesa í fjölmiðlum álfasögur um sérstakt fólk sem býr í allt öðrum heimi en aðrir en sést stundum á kreiki og einhver nær af þeim mynd og af þeim berast undarlegar frásagnir, nema hvað þetta eru ekki lengur álfar heldur „fræga og ríka fólkið“.

Þvílík heift er hlaupin í sigurvegarana að þeir þola ekki lengur minnsta vott af vanþakklæti eða óvirðingu úr ranni þeirra sem hafa beðið afhroð, sem eru flestir. Sigurvegararnir vilja fremur keyra ósigurvegarana út í dauðann en að heyra minnstu efasemdir úr sínu nánasta umhverfi um verðleika sína, og að baki býr rótgróið óöryggi, þeir óttast í raun og veru að virðingin sem fellur þeim í skaut með auðæfum og frægð geti verið hrifsuð af þeim af einhverjum úr röðum Öskubuskanna og Kolbítanna, lyganna sem notaðar eru sem friðþæging sem ali á þeirri vonlausu von að einhver sem er ekkert geti í raun orðið eitthvað því ameríski draumurinn rætist stundum.

Þessi þróun merkir að millistéttin er að stórum hluta horfin. Það eru bara sigurvegarar og ósigurvegarar. Borgarastéttin er á bak og burt. Ef einhver skyldi halda að þessi stórkapítalísku einkenni á sterum, sem tóku að hefjast í æðra veldi á tímum Reagans, gildi ekki á sviði lista og menningar skjátlast þeim hinum sama illilega. Bestsellerismi ríkir og flestir rithöfundar eru fallbyssufóður, enda byggði gott bókmenntakerfi alltaf á því að til væri borgarastétt sem læsi og hugsaði, leitaði að nýjum sannleika, nýjum gildum.

Bókmenntir lúta nákvæmlega sömu lögmálum í heimi þar sem kapítalismi hefur náð svo ævintýralegum hæðum. Ekkert verður mælt nema í peningum og hofmóðugir höfðingjar úr röðum hinna skrifandi stétta fyllast paranoju sem er af sama meiði og uggur rómverskra keisara til forna. Ef marka má Shakespeare sitja þeir við sín andlegu hugðarefni í aldingarði eins og Ríkharður III. og setja á svið leikþátt af undrun og þakklæti og andlegri auðmýkt og áhugaleysi þegar hirðin kemur og vill krýna þá til keisara, sem er reyndar einmitt það sem Ríkharður hefur unnið að hörðum höndum við að ná fram og reyndar með klækjum og undirferli fylgt eftir með mærðarlegu og drepfyndnu sjónarspili hræsninnar.

Það hegða sér allir eins, hinir þrír ríkustu í Bandaríkjunum og smákóngar í öllum smábrönsum. Ekkert er undanskilið lögmálum nýfrjálshyggjunnar: Eins og þeir séu lítilmótlegir þátttakendur í Öskubuskusögu sem stöðugt ómar hvarvetna, sneydd innihaldi og sneydd merkingu.

Samkvæmt Aristótelesi getur auðræði (eða olígarki eins og hann kallaði það) ekki þrifist nema í ákveðinn tíma. Þetta segir hann í riti sínu um stjórnmál. Hann tortryggir lýðræði því það leiði svo gjarnan út á hættulegar brautir. Auðræðið getur aðeins endað á annan veg af tveimur: Annað hvort taka popúlistar til óspilltra málanna og færa sér reiði almennings í nyt svo úr verður alræði, eða þá að auðræðið brestur undan sjálfsprottnu andófi og aðgerðum hinna mörgu.

Brauðmolarnir hætta að falla af borðum sigurvegaranna og höfuð taka að fjúka.