Skák og mát

Karlmenn töluvert betri í skák,“ kaus annar miðill af tveimur sem sögðu sömu frétt á Íslandi að hafa að fyrirsögn. Hinn miðillinn setti mun hlutlausari fyrirsögn og ekki grunlaust um að sá fyrrnefndi hafi verið á orðaveiðum, reynt að taka eitthvað úr samhengi sem sami viðmælandi sagði til þess að gera það grunsamlegt og fiska andmæli og úlfúð, eins og fara gerir og sífellt oftar.

Nú ætlar Skáksamband Íslands ekki að taka neinn þátt í synjun FIDE um að synja trans körlum um þátttöku í skákmótum, hvað þá að svipta neinn verðlaunum, eins og Gunnar Björnsson tekur skýrt fram áður en hann segir að það sé „skrýtin og röng ákvörðun“.

En hann kemst ekki hjá því að nefna að karlmenn séu töluvert betri í skák og nefnir að FIDE hafi svarað þvi með því að hafa annars vegar opinn flokk og hins vegar kvennaflokk, engan karlaflokk.

Af hverju eru karlmenn betri í skák en konur? Fyrir því eru nokkrar ástæður. Þar er fyrst að nefna að sökum tísku og siðvenju tefla miklu færri konur en karlar. 15% af viðurkenndum skákmeisturum eru konur en í augum leikmanna sem tefla á chess.com er nær að ætla að einn af hverjum tíu þúsund þeirra sem tefla skák sér til gamans séu konur, hitt allt karlar. Tölfræðilega er því útilokað annað en að á þessu verði talsverður kynjamunur og þarf ekki mikinn stærðfræðing til að sjá það í hendi sér.

Næst kemur félagsfræðilegur munur. Í Sovétríkjunum hér áður var það einhver besti möguleikinn á að komast til metorða og eignast fé að tefla skák. Þetta olli því að fjöldinn allur af karlmönnum var alinn upp við að tefla frá blautu barnsbeini. Svo hrundi múrinn og allur þessi fjöldi streymdi til Vesturlanda að taka þátt í mótum og ekki kom á óvart að þeir reyndust miklu betri en vestrænir skákmenn, enda hvatinn sterkari. Margur vestrænn skákmaður með stórmeistarametnað þurfti að lúta í duftið fyrir ofurefli.

Næst er að nefna sálfræðilegan mun. Skák er ekki bara íþrótt sem snýst um hugsun heldur líka sálfræði, eins og ótal uppákomur leiða í ljós, svo sem eins og þegar virðulegir stórmeistarar kjósa að standa á fætur og taka sér stöðu aftan við andstæðinginn og rymja til þess að taka hann á taugum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að það skiptir miklu máli hvort sá sem teflir veit hvers kyns andstæðingurinn er eða ekki. Það gildir um bæði kynin. Ef kona veit að andstæðingurinn er karl teflir hún frekar vörn. Ef karl veit að andstæðingurinn er kona teflir hann frekar sókn. Ef hvorugt veit hvers kyns andstæðingurinn er tefla þau það sem má kalla eðlilega.

Auðvitað mætti leiða að því líkur að karlar og konur hugsi öðruvísi, karlar hugsi línulega en konur í hring, eins og áður var oft haft á orði. Að það sé munur á hugsuninni. Þetta gæti þó reynst erfitt að færa sönnur á. Sjálfur tefldi ég stundum hér áður við pólska nunnu á chess.com og hún var miklu betri en ég og vann mig undantekningarlítið. Staðreyndin er sú að það er sárasjaldgæft að rekast á kvenkyns andstæðinga á chess.com og mér fannst hún forvitnileg af því að mig langaði að standa sjálfan mig að verki við að tefla af meiri árásargirni en ella. Ef það var tilfellið virkaði það ekki. Hún vann mig af því að hún var betri (og það er ekkert fútt í að velja sér alltaf lélegri andstæðinga). Það sem virkar aftur á móti er að tefla kóngsgambít á móti þeim sem eru betri en ég vegna þess að þeir hafa lítið lært um þá byrjun í skákbókum og æfiingarprógrömmum því það er svo langt síðan kóngsgambítur var úrskurðaður úreltur að enginn alvöru skákmaður hefur lesið sér til um þá byrjun. Nítjánda öldin skar strax úr um þetta, skákíþróttinni fleygir fram, alveg eins og fótbolta. Lélegri skákmenn en ég vinna mig hinsvegar ef ég tefli kóngsgambít því þeir finna út náttúrulega og með sjálfstæðri umhugsun að það er hægt að rústa manni ef maður leikur svo fornfálega.

Nú er þetta algengt umþráttunarefni í íþróttum og gengur yfirleitt út á líkamlegan styrk karla og kvenna og þar með styrk trans manna. En meðan ekki hafa verið færðar sönnur á að hugsunin sé ólík þegar kemur að skák verður ekki betur séð en að Gunnar þessi sem vitnað er í — misnákvæmlega eftir klikkbeitu-tendens — hafi á réttu að standa um að ákvörðun FIDE gagnvart transmönnum sé skrýtin og röng. Og að hann fari líka með rétt mál um að karlar séu heilt yfir betri en konur í skák og að það eigi sér fullkomlega eðlilegar skýringar.