Skilningur og fordæming

Það allra versta sem haft er eftir Hönnuh Arendt er að ekki skuli leitast við að skilja illskuna því að það að skilja eitthvað sé það sama og að réttlæta það. Það næstversta er frasinn um banalítet illskunnar: Að hið illa sé alltaf hvunndagslegt, banalt, einskær lágkúra.

Ekki að orðin hafi ekki átt við á sínum tíma. Hver sem horfir á réttarhöldin yfir Adolf Eichmann sér að þetta er rétt og glöggt greint. Arendt horfði á þau og um þau voru orðin skrifuð. Og þau eru á youtube og sem flestir ættu að horfa á þau því það er hollt. Óhugnanlegt og ruglandi en hollt.

En nú er það svo að ef fólk er svo lánsamt að vera ekki beinlínis í meira lagi treggáfað upp til hópa og komast í tæri við nútímaheimspeki er líklegt að það sé páfagaukar með skrautfjaðrir sem étur allt upp sem við það er sagt og breytir því í algildi, eitthvað sem gildir alltaf um allt. Þannig fer um hugsuði, það sem þeir segja er þynnt út og þynnist stöðugt eftir því sem fleiri ólæsir páfagaukar gjalla það úr búri sínu og verður á endanum lapþunn súpa með engu bragði og engri hugsun, hreinræktað óæti.

Auðvitað er ekki svo að skilja að illskan sé alltaf banöl og enn síður er það heilræði að hætta allri viðleitni til að skilja heiminn, einkum myrkari hliðar hans. Það sér hver sjálfstætt hugsandi barnaskólanemi að illskan getur verið alveg eins afskræmd og henni er lýst í klisjukenndustu gotnesku kvikmyndum. Hún getur verið með ýmsu móti, getur verið öskrandi reiði, misskilningur manneskju á sjálfri sér þar sem hún telur sér trú um að það sé rétt að breyta illa, jafnvel þótt henni sé innst inni ljóst að það er það sem hún er að gera; hún getur verið drýsilkennd rangtúlkun á því hvað sé fyndið, með öðrum orðum fólk sem hefur engan húmor en trúir því innilega að það sé hreint út sagt hilaríös og kemur sér þannig í aðstæður þar sem það verður sjálfum sér og öðrum að skaða þegar betur færi á því að það léti atvinnumönnum eftir að vera fyndnir og reyni það ekki heima hjá sér sem það sér grínista ganga vel með á skjánum. Fólk getur verið síkkópatar, það ofnotaða hugtak, og skort samlíðan með öðru fólki en sannleikurinn er samt sem áður sá að það er ekki nóg af samlíðan í hverri mannsál til að geta haft samlíðan með öllu heila klabbinu og skortur á samlíðan þarf ekki að merkja illsku.

Að vilja síðan ekki skilja illskuna því það jafngildi réttlætingu er einhver aumasta tugga sem um getur og hugsanlega vegvísir í áttina til þess að verða ill manneskja sjálfur. Hvernig getur viðleitni til skilnings verið af hinu illa? Hann getur það ekki. Þeir sem ekki kunna mun á skilningi og réttlætingu hafa einfaldlega ekki góða dómgreind heldur arfaslæma. Í stöku tilfellum, eins og réttlætingum Adolfs Eichmanns, getur falist gildra í því að trúa um of á banalar sjálfsréttlætingar og það getur leitt til dómgreindarbrests. Það er allt annar handleggur. Heilt yfir er vel hægt að skilja hvað morðingja gekk til, sem getur verið ýmislegt, en fordæma hann samt fortakslaust.

En flestir sem neita að reyna að skilja heiminn og bera fyrir sig útvatnaða útgáfu af orðum Arendt nenna einfaldlega ekki að hafa fyrir neinum tilburðum til skilnings því það er svo miklu auðveldara að reyna ekki neitt á sig sjálfur og svo miklu þægilegra í alla staði að lýsa því yfir á félagsmiðlaveggnum sínum að maður hyggist ekki tala við neinn sem hefur að einhverju leyti aðrar áherslur í túlkun á því sem fyrir ber í heiminum. Það má göfga nýju „samræðustjórnmálin“ með ýmsum hætti en þau eru hrein uppgjöf, við reynum ekki að skilja, við ræðumst ekki við.

Allir sem hafa eitthvað fram að færa enda á því að ná mestri útbreiðslu í útþynntri útgáfu sem gellur á milli páfagauka. Á meðan er skellt skollaeyrum við þeim sem færa fram nýjan sannleik, óþynntan, hugsaðan, vandaðan. Flestir kannski nefna ekki Arendt heldur gera þetta af klassískum ástæðum því þannig hefur það alltaf verið, að sjá ekki, heyra ekki, skilja ekki.

Á mannamáli heitir þetta aumingjaskapur.