Skraddararnir

Það er erfitt að sjá að stætt sé á þeirri skoðun í dag að hinir svokölluðu lúddítar hafi ekki að minnsta kosti að einhverju leyti haft rétt fyrir sér: Sparnaður með tæknivæðingu kemur ekki aðeins niður á gæðum vörunnar heldur er sú aðferð líkleg til að valda atvinnuleysi í iðngreininni.

Áðan fór ég í búð og átti ánægjulegt spjall við vélina sem maður skannar innkaupin með og hún vigtar síðan allt til að koma í veg fyrir að maður svindli. Raunar hef ég allnokkrum sinnum séð kúnna ganga bara út með vöruna án þess að borga og (blessunarlega) er vélin ekki útbúin til að elta kúnnann út á götu og segja honum að hann hafi gleymt að borga, stolið vörunni, svikist undan, og haft hann svo undir með hælhnykk og vélbúnaði og stingum og hringt á lögregluna með þjófinn fanginn í malbikinu. Vélin bara blaðrar og er endurtekningasöm í meira lagi. Ég er að jafnaði glaðlegur við vélina og tala við hana á móti og segi henni frá ævintýrum mínum og mínu andlega auðuga innra lífi. Hún segir lítið við þessu og mér hefur komið til hugar að hún sé haldin Cotard-tálsýn, sem felst í því að fólk verður svo sannfært um að það sé í raun og veru dautt að það borðar ekki og veslast gjarnan upp. Þetta er ekki ósvipað og í skáldsögunni Hanami eftir Steinunni Sigurðardóttur og ég þakka mínum sæla fyrir að það er vélin sem er haldin þessari grillu en ekki ég (hjá mér er það vissa, en bara fyrirframvissa). Fólk sem haldið er þessu hneykslast á ættingjum sínum fyrir að grafa sig ekki, steindauða manneskjuna, og í einhverju fyrsta þekkta tilfellinu var farið að þeirri ósk.

Bráðum losna vélarnar við þetta syndróm og öðlast sjálfstæðan vilja, alveg, geta þróað sig, lært og þroskast og lagt meira til málanna í samræðu.

En nú dó vélin. Ég var með ost sem vantaði á lífsmark matvörunnar, strikamerkið. Ég sagði starfsmanni frá þessu og hann sagði að ég yrði að ná mér í annan ost. Þegar ég kom til baka með strikamerkan ost var vélin dáin og hafði ritað sín hinstu orð á skjáinn, án þess að tala, og þau fólu í sér ósk um að hætta við kaupin (osturinn var það síðasta sem ég setti á skannann) eða kalla á starfsmann til að skrá sig inn og veita henni nábjargirnar. Ég kallaði á starfsmanninn. Kannski var hann nýr en alla vega virti hann óskir vélarinnar umfram mínar óskir og hætti við öll kaupin. Ég spurði hvað hann hefði gert nú, ég væri búinn að skanna allar vörurnar sem þarna lágu. Þá baðst hann afsökunar og sagði að ég yrði að skanna allt aftur. Ég sagði: Oh! af stakri prúðmennsku minni og byrjaði Sysífosarstarfið aftur en vélin þagði. Enda steindauð. Ekki á leiðinni að elta mig út, hvað sem ég gerði.

Lúddítar voru skraddarar í byrjun nítjándu aldar – eða reyndar ekki skraddarar heldur klæðskerar, þeir sem forunnu efnið, strangana, textílinn — og nafn þeirra er í dag gjarnan notað til að hafa að háði og spotti þá sem tortryggja allar tækninýjungar, þótt þeir hafi reyndar borið þetta skondna nafn í höfuðið á einum þeirra sem hét Ned Ludd. Þeir tóku sig til og gerðu uppreisn gegn vélunum, brutu þær og brömluðu hvenær sem færi gafst.

Mér kom til hugar að brjóta vélina en hún var jú dauð.

Lúddítavillan er hugtak sem haft er um þá sem halda að ný tækni kosti fólk starfið. En hvar er fólkið sem var að vinna á kössunum í Krónunni? Það ber eitthvað lítið á því. Og bensíndælumenn eru sjaldgæfir og eiga sér fáa kúnna aðra en mig, sem myndi enn láta dæla fyrir mig ef ég væri ekki á rafmagnsbíl. Auðvitað kostar næsta iðnbylting störf og auðvitað er það af þeim sökum sem hugmyndir um borgaralaun hafa komið upp.

En síðan er aftur spurning hvort vinna beri með tækninni en gæta þess jafnan að hún nái ekki yfirhöndinni, að maðurinn stjórni tækinu en ekki öfugt, tækið stjórni manninum. Eitt tæki út af fyrir sig er ekki hættulegt. Flestir taka þessa afstöðu. Nútíma lúddíti myndi þvert á móti segja að öll tækin í sínu samanlagða veldi ógni sálarheill mannkyns, auki á kvíða og vanlíðan og einmanakennd og gangi loks af jörðinni dauðri. Hann myndi segja ómögulegt að líta á staka hluta tækninnar heldur yrði að gera uppreisn gegn tæknihyggjunni í heild sinni og öllu því sem hún hefur gert frá iðnbyltingu.

Tækni er notuð í allt. Í listsköpun jafnt sem geimferðir, í skáldsagnaritun jafnt sem lógórytma einsemdarmiðlanna, samskiptaleysismiðlanna, til ferðalaga og kyrrsetu við skrif (nema ég, ég reyni að skrifa sem mest með penna). Og varla neitar því nokkur að tæknin á sér hættulegar hliðar.

Munurinn er sá að alvöru lúddíti myndi í dag segja villigötu að ætla að halda sumri tækni en gjalda varhug við annarri og banna enn aðra. Burt með allt heila klabbið! Brjótum allt og brömlum! Starfandi menn og konur og börn, gerum byltingu, rústum öllu helvítis pleisinu eins og það leggur sig, fórnarkostnaðurinn er hár en framtíðin er enn verri ef ekkert verður að gert!

Uppreisn lúddíta var kveðin niður með hörku og þeir ýmist teknir af lífi eða fangelsaðir.