Skráning

Það er ýmislegt ritað sem gæti bent til þess að stundum sé sem hrikti í stoðunum sem skáldskapur, og reyndar list yfirleitt, stendur á. Að það sé ekki bara milligengt á milli skáldsögu og skoðanapistils heldur sé höfundi hreinlega ófært annað en að vera sammála öllum þeim skoðunum sem uppdiktaðar sögupersónur hans tjá og taka sér í munn. Að sama hversu ólíkar skoðanir söguhetjurnar hafi séu þær allar runnar undan rifjum höfundarins, sem enda sé aðalatriðið í öllu heila klabbinu.

Ég er ekki endilega alltaf sammála því þegar talað er um að tvískautun ríki á Vesturlöndum og engin leið sé fær önnur en að taka hvorugan pólinn í neina hæð. Það er gott og gilt viðhorf en á ekki endilega alltaf við. Stundum er annað rétt og hitt rangt. Ég er ekki að hugsa um neitt sérstakt heldur algerlega á abstrakt sviði og hef ekkert dæmi.

Svo ég vendi kvæði mínu í sundurlausan og kræklóttan kross má bræða með sér hvort fólk breyti rétt eða hreinlega rangt með því að lofsyngja stöðugt eigin velgengni á samfélagsmiðlum þegar það er alkunna og margsýnt fram á í rannsóknum að þess háttar færslur valda öðrum vanlíðan. Er fólk bara svo sjálfhverft að það hugsar ekki lengra fram í tímann en eina færslu og eigin fögnuð sem hún veldur hjá því? Vill það þá ekki verða til góðs í því samfélagi sem það býr í? Er fyrirhyggjuleysi smástirna jafnvel ámælisvert?

Ég veit það ekki. Það er alla vega skárra en að fá á sig ófyrirleitnar dylgjur sem bera vott um hreina rætni og óvild, dylgjur sem fólk er síðan ekki manneskjur til að gangast við hvernig meintar séu, hvað þá nógu stórar sálir til að biðjast afsökunar.

***

Ég hef verið að bræða með mér að breyta kynskráningu minni. Það á rót sína að rekja til atvika í háttum mér náinna, sem eru, allt svo, einkamál sem koma fólki ekki við, fremur en annað í einkalífi mínu. Þá finnst mér skemmtilegur aukakostur við það að breyta einnig um nafn. Það er svo róttækur gjörningur að það er eiginlega … svolítið stórkostlegt. En í skráningunni sem slíkri þarf ekki að felast annað en að fólk viðurkenni hvorki né aðhyllist kynjatvíhyggju. Jafnvel dálítil yfirlýsing um að kynjatvíhyggja, eins og önnur tvíhyggja, sé til marks um yfirborðslega sýn á hlutina.

Það þarf ekki annað en að lesa sér sæmilega til í gamla testamentinu til að sjá að oft og tíðum hafa kynin verið spurning um róf, ekki niðurnjörvað og fastbundið andstæðukerfi. Já, líka í samfélögum gamla testamentsins, svo ekki sé minnst á augljósari dæmi. Það eru varla nema Spartverjar sem heiðruðu fastbundna tvískautun með öllu.

Ég er ekki Spartverji.

Kaffærum þau frekar í kærleika.