Skuldir ríkisins í ríkjum skuldanna

Auðvitað væri fáránlegt að taka mark á einu orði sem gengur fram af munni rithöfundar í tengslum við efnahagsmál og efnahagsfræðileg lögmál, fremur en mörgu öðru, en þá er tilvalið að útskýra lögmál sem fólk skilur ekki vel.

Stjórnmálamenn segjast alltaf ætla að sýna aðhald og borga niður skuldir ríkisins. Þeir ætla ekki að gera það. Enginn í neinu landi. Öll ríki heims skulda. Svo miklar eru þessar skuldir að þær eru margföld ársframleiðsla samanlagðra ríkjanna allra. En á þá ekki að borga þetta? Spara vexti og svona? Nei, það stendur ekki til og hefur ekki staðið til síðan ríkisskuldir voru fundnar upp sem efnahagsfyrirbæri einhvern tíma á 18. öld.

Spurningin er: Hverjum skulda ríkin öll þessi lán? Svarið er ekki einfalt. Oft er haft á orði að Bandaríkin skuldi Kína megnið af lánum sínum, en skuldir Bandaríkjanna hafa aldrei verið meiri í sögunni. En það er ekki rétt nema að hluta til. Bandaríkin skulda Kína um 5% af lánum sínum. Hverjum skulda þeir restina og af hverju er ekki reynt að borga skuldirnar niður? Bandaríkin skulda Bandaríkjunum restina. Bönkum, fjármálastofnunum, fjárfestum, sjóðum — öllum bandarískum.

Auðvitað gæti borgað sig fyrir Bandaríkin að borga eitthvað af þessum skuldum ríkisins niður og spara þannig vexti en aldrei allar skuldirnar. Það er spurning um lánshæfi og trúverðugleika ríkisins að skulda ákveðið mikið. En bankarnir og fjárfestarnir? Eru þeir ekki að bíða eftir að Bandaríkin borgi skuldir sínar? Nei. Ekkert verra gæti hent þá en að ríkið tæki upp á slíku. Bankarnir hafa það ágætt af vöxtum af lánunum og það hvarflar ekki í alvöru að nokkrum manni að borga ríkisskuldir upp, hvergi í veröldinni. Ríkisskuldir eru efnahagsleg uppfinning og hafa ríkt í nokkrar aldir um víða veröld.

Þetta er hringrás fjármuna sem fer að neðan og upp á topp. Mylla. Sem gengur upp sé hún látin í friði. Þetta er einkenni á efnahagskerfi nútímans.

Ef öll ríki heimsins borguðu upp skuldir sínar myndi efnahagur heimsins í núverandi mynd hrynja.

Aukavinkill á þessu ástandi er að það er fólkið í ríkjunum sem skuldar. Hinir ofurríku græða á skuldunum. Þetta heldur hjólum efnahagslífsins gangangi. Þetta gerir þá ofurríku ríkari og hina fátæku fátækari.

Þegar stjórnmálamenn segjast ætla að sýna aðhaldssemi í ríkisfjármálum — tja, það er bara ekkert að marka það nema að takmörkuðu leyti. Ekkert ríki með réttu ráði hefur í hyggju að borga niður allar ríkisskuldirnar.

Mér datt í hug að einhver vildi vita þetta.