Skýringar

En fyrst þó stóuspeki dagsins:

Hataðu engan, haltu vinum þínum nálægt þér en óvinum þínum nær. Misstu aldrei hugarróna.

Taktu þig til af og til og svífðu á fólk eins og persóna úr bók eftir Dostojevskíj eða Sulti eftir Hamsun og talaðu ruglingslega og afsakandi og gerðu allt sem þú getur til að rugla þetta fólk, sem þú skalt handvelja vandlega, í ríminu, sem það kann ekki.

Líttu á þér fjandsamlegt fólk sem áskorun en ekki óyfirstíganlega hindrun. Sigraðu það með sjálfsþekkingu þinni og gakktu í glaðlyndi áfram.

Hugsaðu aldrei um hvað fólk kann að segja um þig, þú hefur takmarkaðan tíma og hugsunin er tímasóun, þú ræður hvort sem er ekkert yfir þessu.

Kynntu þér heiminn í stað þess að einblína á smáblettinn sem þú stendur á.

***

Og þá eitthvað alvarlega. Viðbrögðin við því sem gerst hefur milli Palestínu og Ísrael einkennast af því að við búum í myndrænum heimi. Okkur þyrstir í sjokkerandi myndir. Skilningurinn og hugsunin verða útundan. Sárafáir hafa raunverulegan metnað til að skilja hlutina og segja hlutlægt frá.

Það besta sem ég hef fundið til skýringar á ástandinu er þáttur með hinn hraðmælta Simon Whistler að þuli og kynni. Að horfa á þetta eina vídeó gerir meira en að lesa þúsund fréttir og milljón statusa.