Sögur og saga

Juan Goytisolo aðgreindi einhverju sinni samtímabókmenntir og nútímabókmenntir. Samtímabókmenntir væru betri söluvara og tengdust betur við tíma sinn en nútímabókmenntir væru gjarnan slæm söluvara en teygðu sig fram og aftur í tíma og hefðu sitt mikilvægi, sitt óendanlega mikilvægi. Hann hafði enga fordóma gagnvart samtímabókmenntum en varaði við því að jafnvægi ríkti, samtímabókmenntum væri ekki gert of hátt undir höfði og nútímabókmenntum ekki úthýst af markaðslegum ástæðum.

José Saramago sagði að sannkallaðar bókmenntir væru þrívíðar, teygðu sig aftur í tímann, til samtímans og til framtíðarinnar.

Hvað sem því líður sé ég ekki ástæðu til að andskotast út í fólk eins og mig fyrir að hafa skrifað um fortíðina. Af hverju ætti ekki að mega vera bara allskonar, hver skrifa það sem honum sýnist og allt vera til í einu og öllum það ámælislaust? Það finnst mér, þótt vinkonu minni Þórdísi Gísladóttur þyki það ekki. Ég veit ekki alveg hvað „gamaldags sögur“ merkir og hefur sjálfum þótt ríkja hér á landi fremur tilhneiging til þess að skrifa raunsæislega og vilja bara lesa raunsæi. Því til grundvallar liggur ákveðinn skilningur á því hvað sé raunsætt sem byggir á skilgreiningu á því hvað sé raunveruleiki og hvað ekki.

En auðvitað hefur hver rétt á sinni skoðun og fólk má bauna eins og því sýnist, það er bara hollt og gott og ekkert við það að athuga, sama hvers til er vísað.

***

Þegar nýtt fólk kom til landsins sem í dag nefnist Bandaríkin, eða segjum í kringum árið 1600, voru þar fyrir á að giska 60 milljónir frumbyggja, þótt ég hafi líka heyrt töluna 120 milljónir. Í lok nítjándu aldar voru þeir tvö hundruð þúsund. Allir hinir voru drepnir.

Í stríðinu í Kóreu notaði bandaríski herinn efnavopn með þeim afleiðingum að enn þann dag í dag fæðast börn með alvarlega erfðagalla, fyrir utan alla þá sem voru drepnir.

Víetnam-stríðið hefur að geyma atburði á borð við fjöldamorðin í My Lai. Þorpsbúum var nauðgað og þeir pyntaðir áður en þeim var fleygt út í skurð þar sem þeir voru drepnir. Ámóta margir víetnamskir hermenn og óbreyttir borgarar voru drepnir og talan slagar upp í milljón.

Japan hélt úti útrýmingarbúðum í Kína þar sem mállausar pyntingar og dráp og læknatilraunir voru stundaðar á svæði sem Japan hafði hertekið. Bandaríkin voru framarlega á velli við að kasta frásögninni um þetta á öskuhauga sögunnar, í samráði við Japan, en Bandaríkjamenn réðu læknana sem stunduðu þær verstu til starfa í Bandaríkjunum að stríði loknu. Áður hafði Japan reynt að vingast við Vesturlönd með því að skipuleggja gyðingaríki í borginni Fugu í Kína, gegn harkalegum snuprum Þjóðverja, en Japan var þekkt sem griðastaður fyrir Gyðinga — í stríðum er ekki skýrt skipað í lið. Japanir lentu ekki Vesturlandamegin og minna varð úr gyðingaríkinu en til stóð, en þó talsvert, og Japanir voru tilbúnir til að gefast upp og leggja niður vopnin þegar Bandaríkjamenn vörpuðu tveimur kjarnorkusprengjum á tvær borgir með hörmulegum afleiðingum. Öfugt við frásagnir Bandaríkjamanna — útbreiddar sögufalsanir — var þessum árásum einkum ætlað að fæla Sovétið frá hernaðaraðgerðum með útrýmingu almennra borgara, sýningu á hernaðarmætti stórveldisins; þetta batt ekki enda á stríðið heldur var tilgangslaust fjöldamorð þar sem heimsveldi sýndi klærnar.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Bandaríkjamenn styðji þjóðarmorð á Palestínumönnum. Þjóðarmorð hefur verið fastur passi í stuttri sögu Bandaríkjanna, hún hófst þannig og þannig hefur hún haldið áfram, jafnt í Rómönsku Ameríku sem í Afganistan og Írak. Sitjandi forseti er einhver mesti stuðningsmaður stjórnvalda Ísraels sem setið hefur í embættinu og kallaði ríkið eitt sinn bestu hugsanlegu „fjárfestingu“ Bandaríkjamanna sem til hefði verið, og átti þá ekki síst við staðsetningu.