Sumræðan

Ég hallast að því að átökin sem eiga sér stað á milli tveggja póla séu ekki á milli hægri og vinstri. Ef svo væri myndi bera meira á hugmyndafræði. Annar armurinn myndi segja: Við viljum samfélag sem er X. Hinn: Við viljum samfélag sem er Y. Vinstrimenn myndu ekki ota viðkæmustu hópum, svo sem trans fólki, í fremstu víglínu heldur standa þar sjálfir, tala um pólitík og skýla hinum viðkvæmustu að baki sér. Hægrimenn myndu ekki berjast gegn skinhelgu orðavali þorrans um minnihlutahópa heldur tefla fram hugsýn af samfélagi þar sem einstaklingnum ber reisn og tign, enda sé öllum allt mögulegt í krafti einstaklingsframtaksins.

Nei, annar póllinn og hinn póllinn standa ekki fyrir hægri og vinstri í klassískum skilningi heldur er umræðan fyrst og fremst til marks um heilaskemmdir allra.

Ég sagði heilaskemmdir.

Fréttamiðlar eru þar ekki undanskildir. Hvers vegna að greina frá því hvað Donald Trump hafi sagt, þótt hann segi að endursmíða skuli tunglið þannig að það verði úr osti, varla kæmi neinum slíkt mikið á óvart, þegar málið er hvað hann gerir og hvernig megi greina heimsmyndina út frá því?

Vinstrið á ekki lengur jafnréttismálin. Hægrið er á svipuðum stað, á Íslandi alla vega. Hverjum það er að kenna eða þakka að þau ganga sífellt meira út á að konur gangi í stjórnir fyrirtækja, sem gerir nákvæmlega ekki neitt fyrir pólsku skúringarkonuna, er aftur spurning. Vinstrið er í dag fremst í flokki stuðningsmanna veru Íslands í Nató. Ef einhver hefði spáð því árið 1970 hefði einhver annar hrokkið úr hálslið. En enginn stjórnarflokkur berst fyrir því í dag að Ísland gangi úr Nató. Sá sem orð hefði á slíku yrði sjálfsagt kjöldreginn. Spurning er hversu ákaft stjórnarflokkar berjist fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ég álít þá baráttu ekki raunhæfa fyrir kjörgengi flokkanna. Af hverju ætti flokkur eins og Samfylkingin að tefla í tvísýnu nýfenginni fylgisforystu með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu sem klýfur hana í herðar niður? Hefur ekki Viðreisn fyrir allnokkru dregið úr áherslu sinni á Evrópusambandið, sem var það sem í öndverðu klauf flokkinn frá Sjálfstæðisflokknum?

Svona spurningar koma máli ekki við því málið er kollektív heilaskemmd almennings.

Það vill gleymast að CIA átti ríka aðkomu að tilurð Google. Og fjölmörg stórfyrirtæki tengdu saman stjórnvaldsstofnanir og tæknigeirann, og svo stjórnmál. Markmiðin gátu enda farið saman, öllu skiptir að hafa áhrif á vitund einstaklingsins og skoðanir. Með látlausum þversögnum, sem streyma eins og tár niður grátmúr á veggjum „vina“ á Facebook og með ruglandi framsetningu auðnast hverjum sem vera vill að fragmentera heimsmynd mannskepnunnar enn meira en tilkoma sjónvarpsins gerði hér áður. Á engu verður fest hönd, ekkert birtist nema brotabrot og ekkert er eftir nema helsta grunneinkenni hugmyndakerfanna gömlu, að þurfa að búa sér til óvin. Ég er sá sem ég er því óvinur minn er þessi. Það færist yfir í fleirtölu: Við erum þau sem við erum bæði vegna óvina og sameiginlegra hópa sem eiga sama óvin.

Samræða og umræða hafa blandast saman og úr varð sumræða, þar sem sumir ræða við suma og sumir aðrir ræða við suma aðra en sumir1 og sumir2 ræðast aldrei við. Nei, ég er ekki að reyna að vera ofursniðugur með orðinu sumræða, heldur kemur mér ekki annað til hugar þegar ég sé að samræða er engin. Af hverju er samræða engin? Vegna þess að hún er útilokuð þegar fregnir af forseta Bandaríkjanna hafa runnið saman við skemmtiþátt, líklega hans eigin veruleikaþátt, vegna þess að hún er útilokuð þegar reyndin er orðin að það er ekki hægt að sjá samhengi í neinu. Algórytminn hamrar látlaust á samhengisleysi, þversögnum, óskiljanlegum frösum, brotabrotum brotabrotabrotanna. Miðill á 19. öld gerði þetta ekki. Vegna þess að hann gat það ekki. Aðvitað voru til brotaform og það eru enn til bókmenntaleg brotaform en metnaður skáldsögunnar var að vera æfing í því að setja sig inn í flókna hluti og ná að skilja samhengið. Jafnvel þótt samhengi væri samsett úr brotum og brotabrotum. Brot vefmiðlanna tengjast öðrum brotum ekki neitt. Þau eru látlaust áreiti úr rústum mölbrotinnar siðmenningar og valda alvarlegum breytingum á því hvernig mannshugurinn virkar. Þar sem einstaklingur hefur ekki heildstæða heimsmynd er honum fyrirmunað að tala við annan einstakling með aðra heildstæða en öndverða heimsmynd. Það geltir bara hver á annan. Og svo á fólk í sumræðum við sumherja sína. Hvað rekst í annars horn. Miskunnsami sumverjinn lætur ekki hvarfla að sér að gauka góðu að öðrum, bara sumum. Forskeytið sam- er horfið.

***

Nú sé ég reyndar að þessu rituðu að Lestin á Rás 1 hefur gert tilraun í dag með að leiða saman tvo gerólíka einstaklinga sem fulltrúa pólanna. Best maður hlusti og athugi hvort þetta séu sumræður. Eða sundurtöl. Eða eitthvað.