Ég sakna Eiríks Guðmundssonar. Ég sakna hans mjög. Ekki bara vináttunnar og endalausra samræðnanna heldur líka raddarinnar í útvarpinu. Raddar sem vogaði sér. Raddar sem orðaði sjálfstæða hugsun. Sagði oft það sem mátti ekki segja. Kom með óvæntan og vægðarlausan sannleika. Svo ískraði í af húmor svo ekkert var hægt að segja á móti.
Út undan mér sé ég að fólk er enn að nefna þetta með vigt og blaðsíðufjölda bóka frá aukalotu hins árlega héraðsbrests þetta misserið og að ekki sé hægt að meta bækur þannig. Mikil ósköp. Þó það nú væri.
Eitthvað minna bólar á djúpri umræðu um í hverju listrænt gildi felist þá yfirleitt. Það vantar rödd sem orðar hana. Nálgast spurningar en ekki svör.
Maður horfði á tvo menn, Andra Snæ og Stefán Einar, safna um sig hersingu sem var sammála þeim og klöppuðu þeim lof í lófa. Ég gaf engin læk í þetta til neins.
Engin samræða varð, eins og jafnt á milli hópanna og innan þeirra ríkti heragi eða flokksræði sem bannaði tjáningu og krítíska hugsun.
Eitthvert ófrelsi.
„Hver ritskoðar ritskoðarana?“ spyr Lydon í laginu hér að neðan, „Acid Drops“. „Get ég gert það sjálfur, gert upp hug minn eins og hver annar?“
„Hvað merkir þetta? Hvað merkir yfirleitt nokkuð?“
„Hvað er ekki skítugt? Hvað er ekki hreint?“
„Hvað ættum við ekki að segja? Hvað ætti ekki að heyrast? Eða vera notað sem teikn, notað sem orð?“
Það blasir við að þegar sá sem er ásakaður um að hafa ekki skilað frá sér nógu mörgum blaðsíðum, sem sé mælikvarði á list, svarar fyrir sig með því að leiðrétta blaðsíðufjöldann, sem sé miklu meiri en talinn hefur verið, hefur hann vitandi vits eða óafvitandi tekið undir það sjónarmið að listrænt gildi felist í blaðsíðufjölda.
Augljóslega. Það blasir við að sá sem trúir að engu leyti á gildi slíks mælikvarða lætur ekki hvarfla að sér að leggja lykkju á leið sína til þess að „mæla rétt“. Hann myndi standa við þann mælikvarða á list sem honum er heilagur. Að sjálfsögðu er það ekki vigt eða blaðsíðufjöldi heldur eitthvað annað.
Hvað má segja og hvað má allsekki segja?
Ef bætt er við verðlaunamergð, sölutölum, upphefðum, frægð, útflutningsvörufjölda og afleiddum hagrænum áhrifum innanlands eru komnar fleiri stoðir um hvað felist í listrænu gildi sem mætti hæglega vefengja, jafnvel ræða. Er þetta listinn yfir listrænt gildi?
Það hefðu komið spurningar og hefði komið alvöru umræða ef raunverulegra málfrelsi ríkti á landinu og færra væri af andlegum kirkjum sem ekki þola kirkjubrot, né einu sinni vott af helgispjöllum, í hvora áttina sem er. Slíkt heitir gagnrýnin hugsun.
Af sjálfu leiðir að mér veitti ekki af nokkrum svona verðlaunum á eigin lista ef ég ætti að komast lönd og strönd en hef engin fengið. Þeir sem hafa aldrei heyrt á rökræðu minnst né einföldustu rökvillur geta kallað mig öfundsjúkan. Verið þá kannski svo vænir að hafa tannhjól tímans á bakvið eyrað í leiðinni.
Væru bækur mínar þá meira virði? Ef þær hefðu meira listrænt gildi í augum fleiri vegna fjölda þess fólks sem tekur mikið mark á verðlaunum? Hvað er listrænt gildi?
Tveir menn töluðu sama tungutakið til að orða sömu hugsun, mælieiningu bókmennta sem blaðsíðufjölda. Óvart voru þeir sammála um mælikvarðann af því að þannig hljómaði svar rithöfundarins, like it or not. Það var enginn Eiríkur til að grípa boltann á lofti.
Rithöfundarnir stormuðu, er mér sagt, fram með lista yfir verðlaunin sín og hagræn fokking áhrif og þar með tilvistarréttlætingu sína. „These are the clueless“.
Mér fannst Um Tímann og vatnið alveg frábær bók. Mér fannst kvikmyndin Draumalandið bera mörg merki um að vera hreinn pólitískur áróður. Ógnarlangt myndskeið með fugli að drepast og klippt inni á milli yfir í sveitastjórnarfólk að fagna ákvörðunum sínum um virkjanir. Hugrenningatengslin augljós: Þetta fólk er að drepa þennan fugl. Hreint tilfinningaklám, áróður. Demónísering. Af sama meiði og þegar hægri popúlistar í Evrópu líkja fólki við rottur.
Áróður. Ekkert listrænt gildi. Gátu þau ekki alla vega hætt að filma og bjargað fuglinum?
Og var það kannski kjarni máls hjá þessum Stefáni Einari? Að honum hugnaðist ekki tilhugsunin um að pólitík sem hann var ósammála hlyti styrk frá ríkinu? Hann um það. Má hann það ekki örugglega? Myndi hinum líka það betur ef höfundur stundaði hægri áróður á kostnað þeirra sem skattgreiðenda? Það hefur hent. Vinstrimenn voru ekki hrifnir af drottnun Kristmanns Guðmundssonar.
Er fullvissan alger hvarvetna og engin tilbrigði leyfð við einhaman sannleika? Má víkja röðum úr fylkingum? Hver talar fyrir mig ef ekki ég sjálfur?
Hver ritskoðar ritskoðarana? Get ég gert það sjálfur?
Hvar eru sýrudroparnir? Ég sakna Eiríks Guðmundssonar. Óskaplega.