T-bindindi

Þótt maður sé í T-bindindi (lesi aldrei fréttir um hvað T hafi sagt) merkir það ekki uppgjöf í viðleitni til að skilja og skýra heiminn. Eiginlega þvert á móti.

Enginn forseti hefur nokkurn tíma verið jafn mikið í fréttum og T. Ekki fyrir það sem hann gerir heldur það sem hann segir. Og fréttir af því hvað hann segi og um persónuleika hans uppfræða manni ósköp lítið og gera mann ekki sterkari að vígi, að skilningi, hugmyndum, nú, eða að lausnum fyrir þá sem slíkum valda. Eiginlega bergmálar alltaf það sama: Að það eru engin takmörk fyrir því sem T lætur út úr sér. Við vissum það fyrir löngu. Hann gæti sagt hvað sem er á morgun, ekkert kæmi á óvart. Ég les það ekki.

Um leið og miklar líkur eru á að fjölmiðillinn sem flytur fréttir af því sem T segir þétti raðirnar meðal fylgismanna T, sem álíta bandaríska fjölmiðla alla á móti honum (sem er nokkuð til í) og ofsækja hann látlaust, höfðar sá sami fjölmiðill til kvíða okkar hinna og geri sér hann að tekjulind. Ekki vegna þess að starfsfólkið á fjölmiðlinum sé fégráðugir asnar heldur er eins líklegt að þeir séu jafn kvíðnir sjálfir og smita frá sér. Afraksturinn: Hver vill vera kvíðanáma fjölmiðils? Ekki ég.

Það sem T gerir er hins vegar annað. Hugmyndalegar forsendur, rætur, það sem drífur hugmyndir og aðgerðir áfram og hvernig fylkissaksóknarar streitast við þótt hæstiréttur sé tapaður: Það tekur hlutina nokkur ár að koma fyrir hæstarétt. Það er margt í boði til að kynna sér það þótt maður sé í T-bindindi. „Konungssinnar í Kísildal“ er í meira lagi góð íslensk þáttaröð og fjallar um hugmyndir. Ef það má súmmera upp það sem fram kemur í þeim er það kannski það sem titillinn gefur til kynna: Nú um stundir á sér stað óvenjulegur samruni tækniauðjöfra og ríkisvalds með ávæningi af einræðishugmyndum.

Það sem T gerir er ekki að stofna ICE heldur á ICE sér langa sögu. Maður gerir margt verra en að lesa færsluna á Wikipediu um þetta batterí. Wikipedia er orðin með trúverðugri miðlum.