Það er komin ný tegund af smáfréttum og myndböndum og smellubeitum sem gengur út á að taka fyrir einhvern gersamlega augljósan hlut og fullyrða í fyrirsögn að lesandinn kunni hann ekki, hafi alltaf gert það rangt, sé eins og sjúklingur sem vaknar eftir massívt heilablóðfall og viti ekki neitt í sinn haus og þurfi að lesa viðkomandi dellumakkerí, annars geti hann ekki kveikt á eldspýtu, gengið yfir gangbraut, skorið tómata, soðið egg, plantað tré, yddað blýant, skrifað bók eða eitthvað þaðan af einfaldara. Baneitrað en þykist vera húsráð. Sannleikurinn er rétt handan við hornið, mannkynssagan er byggð á misskilningi á því allra augljósasta, björt framtíð blasir við þegar allir hafa lært að skera agúrku, þversum og langsum og í litla bita og í sneiðar, og láta af þrjósku sinni og hlýðni við hefð og venjur því nú stendur yfir alger umpólun á öllu — glætan! — og ekkert verður aftur eins og það var.
Þetta er heilaþvottur. Þetta er pavlovsk skilyrðing. Miðillinn vill fá valdið yfir hvað þú segir og gerir og hvernig þú ferð að því og hann vill að valdið sé skilyrðislaust. Þú hefur alltaf gert þetta rangt, svona áttu að gera, segir miðillinn í míkrómynd af forheimskun í upplýsingaofhlæði, og hann vill ekki að þú komist að því að megnið af upplýsingunum sem þú innbyrðir er lituð þvæla, grunnhyggin vitleysa sem felur sumt og birtir annað, þaggar sumt vægðarlaust en hampar öðru til helvítis og aftur til baka, áróður til að fá þig til að forsmá eitt og upphefja annað, hafa formótaðan smekk, hata og elska, taka þátt í múgskoðun sem stendur á engum grundvelli og byggir á ofurtakmarkaðri þekkingu, ef einhverri, fullyrðingum og einföldunum. Kenningar Pavlofs voru miklu viðtækari en svo að þær fjölluðu bara um slefið í hundi. Þær voru heimfærðar yfir á heilu menningarsamfélögin og virkuðu á tveimur hæðum og sú síðari var ekki könnuð fyrr en eftir daga vísindamannsins og fjölluðu um annað og ísmeygilegra en hljóman orðanna. Miðillinn vill umfram allt ekki að þú hugsir sjálfstætt, málefnalega og krítískt, hann vill að þú haldir kjafti og slefir og skerir agúrku, guð má vita með hvaða aðferð því ég hef ekki smellt á fyrirsögnina.
Gleðilega hátíð!