Fyrir C.
Í ritningunum rangt er margt, ranglega tilfærðar sögur.
Að þessu sinni mundar Ísak öxi sína og býr sig undir að láta höggið ríða á Abraham, föður sínum. Sólin skín og lengst uppi á himninum flýgur fugl. Ísak trúir ekki á hinn eldforna guð en hann hefur búið til sína eigin lygi sem hann notar til klækjabragða. Þessi lygi, þessi guð — þessi sjálfsgöfgun — hefur sagt honum að hann eigi að fórna föður sínum. Abraham lítur upp og horfir ástúðlega á son sinn, því hann trúir líka á lygina. Einnig Abraham álítur að fórnin sé gjöf og í henni felist guðdómur og dýrð til frambúðarinnar. Altarið sem Ísak klambraði saman er ekki tilkomumikið fyrir svo mikinn guð en verður að duga. Ísak er níu ára og augu hans eru blá. Í orðunum býr helgi og hún er raunveruleg og í þjáningunni býr líka helgi og hún er líka raunveruleg og enginn skyldi láta hvarfla að sér að efast um hin helgu orð þótt nóg sé til af hinum vanhelgu. Ef fólk er vanheilagt er allt vanheilagt í augum þess.
Og hver segir að áformin hafi verið skilaboð eða sýn en ekki útreiknuð áætlun til sjálfsupphafningar? Ritúalið deyr aldrei, það breytir um form.
Í einni leiftursýn hættir Ísak við að fórna föður sínum. Lygin hvíslaði að honum að gera það ekki. Lygin var guð.
Einhver hugsar: Hví að kenna nokkurn til ættingja? Samkvæmt áætlun hvers er ætternið? Einhver hugsar: Þegar öll vötn hafa runnið til sjávar mun ég hjálpa þér ef ég get og drepa þig ef ég verð, þegar öll vötn hafa runnið til sjávar mun ég hjálpa þér ef ég get og drepa þig ef ég get.
Konan í bláa kjólnum þráir hefnd.
Abraham lítur upp og horfir til himins, eins og Nebúkadnesar forðum þegar hann endurheimti vit sitt. Augu Abrahams eru ekki blá. Eru honum gægjur í augum?