Hermann Stefánsson fæddist í Reykjavík þann 25. júlí á því herrans ári 1968 og ákvað á fyrsta áratug ævi sinnar að hann væri rithöfundur og skáld og myndi vera það í framtíðinni og ekkert fengi því haggað. Ýmislegt kom til, ekki aðeins lestur bóka, hugsjónir um annan heim eða lífsatvik eins og þau haga sér, kynduglega, harmrænt eða kómískt, heldur líka eitt til: tónlist. Til þess að lesa bækur sem hafa verið skrifaðar og komast að því hvaða bækur hafa það ekki, stundaði Hermann nám í bókmenntum við Háskóla Íslands, bæði í íslenskudeild og bókmenntafræði, og einnig á Spáni, eða nánar tiltekið í Galisíu, þar sem hann hefur dvalið langdvölum og stuttdvölum. Allt kom fyrir ekki, Hermann ætlaði enn að verða rithöfundur þegar hann yrði stór.
Þó varð bið á því að Hermann birti neitt eftir sig eða gæfi út. Hann skrifaði margar ljóðabækur sem og skáldsögur fyrir tvítugt sem hann ákvað að væru þess verðugar að koma ekki út. Þá tók hann til við laga- og textasmíð og hefur verið við það æ síðan af og til. Hermann fór að skrifa í blöð sem gagnrýnandi, þýða bækur, skrifa greinar, flytja útvarpspistla, lesa yfir bækur fyrir aðra og ritstýra. Hann ritstýrði menningarvefnum Kistunni og stundaði ýmis störf, hvert öðru ólíklegra, spilaði í hljómsveitum og sat við. hitt og þetta í ReykjavíkurAkademíunni.
Fyrsta bók Hermanns er Sjónhverfingar sem Bjartur gaf út 2003, en hún hefst sem fræðilegt greinasafn en tekur svo kúrsinn í átt að skáldskap. Níu þjófalyklar kom svo út ári síðar. Á henni stendur að hún sé smásagnasafn, eins og höfundi þótti hún vera, en flestir hafa litið á hana sem skáldsögu, sem hún líklega er. Meðal verka sem Hermann hefur sent frá sér síðan eru tvær skáldsögur sem fylgdu í kjölfar Níu þjófalykla og mynda þríleik með þeirri bók, Stefnuljós og Algleymi. Hælið heitir skáldsaga frá árinu 2013 en hún kom út í takmörkuðu upplagi í tímaritröðinni 1005, er einslags glæpasaga og gerist á Kleppi. Þá er að geta skáldsagnanna Bjargræði sem út kom árið 2016 og hefur að söguhetju kraftaskáldið og förukonuna Látra-Björgu og Millibilsmaður sem út kom 2022 og hefur að söguefni spíritisma á Íslandi og átök Guðmundar Hannessonar læknis við félag þeirra og rannsóknir hans á merkasta miðli íslenskrar sögu. Hermann hefur gefið út bækur jafnt og þétt, oft árlega en ögn sjaldnar í seinni tíð, jafnt skáldsögur, smásögur og ljóðabækur, auk útvarpsleikrits. Hann hefur haldið úti fleiri bloggsíðum en höfuðáttirnar eru. Þá hefur hann þýtt verk erlendra höfunda, meðal annars Horacio Castellanos Moya, Adolfo Bioy Casares, Juan José Millás, José Carlos Somoza, Jorge Luis Borges og Zizou Corder.
Eftir því sem best er vitað býr Hermann og starfar í Reykjavík og hefur það ágætt.