Um ósáttina við Guð

Og svo sem eins og Job. Hvílíkur níðingur reyndist Guð Job. Veðjaði við Satan um hvort Job væri í raun sanntrúaður og tók af honum allt ef vera kynni að Job væri aðeins trúr Guði vegna velgengni sinnar.

Þá reiddist Job Guði. Og hvað hafði Guð fram að færa þegar upp var staðið? Ekkert — nema „Ég er Guð og ég hef valdið, hvernig dirfist þú að vefengja verk mín?“

Fyrir þessu lyppaðist Job niður. Og hann fékk allt til baka sem hann hafði misst. Eða gerði hann það? Nei, hann fékk ekki sömu börn og Guð hafði drepið fyrir honum heldur önnur.

En — segir kirkjan og afneitar helmingnum af ritningunni — Guð er ekki sá sami í gamla testamentinu og því nýja, og hún skreytir sig með regnbogum og viðhefur innihaldslaust tal, Guð blessi Samtökin 78, heyrði ég einn fara með að bæn eins og ekkert væri sjálfsagðara og kirkjan sjálf aldrei haldið öðru fram í tvö þúsund ára sögu sinni.

Viltu hafa það svartara, góði Guð? Ef þín er dýrðin er smánin mín. Ef þín er miskunnin er vægðarleysið mitt. Ef þín er líknin er myrkrið mitt. Ég hefi tekist á við djöfla en þeir voru smáborgarar og oinkis virði. Milljón kerti hafa brunnið upp fyrir ást mína sem aldrei varð nein. Þú, góði Guð, hefir aldrei rétt mér hjálparhönd. Þú hefur staðið með ranglætinu gegn réttlætinu. Ef þinn er mátturinn, dýrðin, vegsemdin og hátignin áfrýja ég. Ég áfrýja endalaust, fram í rauðan dauðann. Þú stendur með valdsmönnum, ekki mér. Ég mun ekki hætta, eins og Job, að formæla deginum sem ég fæddist.

Ef það ert þú sem gefur spilin segi ég mig frá spilaborðinu. Ég segi pass.