Uppfinning vandlætingarinnar

Fyrir nokkrum árum, áratug eða meira, var gerð stórkostleg uppgötvun. Menn höfðu á orði að aldrei hefði verið gerð merkari uppgötvun í mannkynssögunni, þótt það orð væri óttaleg þvæla. Uppgötvun vandlætingarinnar markaði tímamót í tíðarandanum. Fljótlega fór að koma í ljós að engin takmörk voru fyrir því hversu víða væri hægt að nota vandlætinguna. Það eina sem maður þurfti að gera var að bíða eftir góðu tækifæri, bíða þess að orði eða setningu brygði fyrir sem hægt væri að taka vandlætingarkast yfir, og taka þá eins skjótt og orðið yrði andköf af vandlætingu. Fólk komst að því að þetta breytti ekki aðeins heiminum til hins betra heldur fylgdi þessu afar þægileg tilfinning, þar sem vandlætaranum leið vel með sjálfan sig og fannst sem hann væri yfir aðra hafinn, þar sem hann skilgreindi og endurskilgreindi sjálfan sig í andstöðu við eitthvað annað.

Góð málefni og góðar hugsjónir voru einkar þægileg aðferð við notkun vandlætingarinnar. Ef ein setning í annars ágætu viðtali orkaði tvímælis mátti einangra og slíta úr samhengi svo vandlætingin fengi notið sín til fulls. Það varð að vera á vaktinni. Það mátti líka sýna vandlætingu vegna fyrirbæra úr fortíðinni og sögunni. Fólk tók Íslandssögu Jóns Aðils og kepptist við vandlætingu um hana, jafnvel þótt í þeirri merku bók væri einmitt kafli sem fjallaði um eldra niðurlægingarskeið í sögu Íslands sem hafði einmitt verið andlaust og ófrjótt með eindæmum og einmitt einkennst af sambærilegri vandlætingarbylgju. Þá mátti taka andköf yfir þjóðernishyggju Íslandssögunnar, jafnvel þótt fyrsti kaflinn fjallaði einmitt um að íslensk menning væri tilkomin vegna blöndunar við aðra menningu, væri skólabókardæmi um fjölmenningarsamfélag.

Þessu óx stöðugt ásmegin og ný tilbrigði við hina nýju uppfinningu urðu til. Það var hægt að búa til list úr hreinni vandlætingu og engu öðru. Þessi list minnti mjög á Sovétlist og fordæmingin á allri annarri list minnti mjög á hvernig Sovétið uppnefndi óæskilega list sem „formalisma“ en við þetta var hægur vandi að ráða: Maður bara sýndi þeim vandlætingu sem benti á þessa augljósu staðreynd, eða þagði algerlega yfir slíkum orðum.

Loks varð úr þessu það sem sagnfræðingar síðari tíma gætu kallað síðkapítalískan athyglisiðnað. Fréttastofur uppgötvuðu að til þess að selja betur fréttir væri gott að hafa í þeim skírskotun til vandlætingarinnar. Fréttir urðu að iðnaði. Þær hættu að vera frásagnir af atburðum og urðu framleiðsla á atburðum sem leiddi af sér vandlætingarbylgju frásagna hinna vandlátu og gáfu aur í kassann fyrir fjölmiðilinn, frá og með þætti Jerry Springer. Fréttir af forseta Bandaríkjanna og hvað hann sagði þann daginn urðu fullkomlega sjálfbærar. Engum kom lengur á óvart hvað upp úr manninum gat hrokkið en samt virkaði þetta fyrir fjölmiðlana, þessar endalausu fréttir, og hinir vandlætingarsömu tóku sjálfkrafa vandlætingarkast og gerðu þannig fjölmiðlinum kleift að dafna fjárhagslega og studdu við forseta Bandaríkjanna, sem var þetta að sjálfsögðu í vil. Hið óvænta hvarf. Sjálfstæð hugsun varð að skammaryrði. Þetta náði alla leið frá fjölmiðlum upp í akademíuna. Fólk tók eftir því að þeir sem neituðu að fylgja fjöldanum, vegna einhverra meinloka, urðu berskjalda fyrir útskúfun. Útskúfun hafði þá verið dubbuð upp með nýju orði svo það hljómaði ekki eins og félagsleg útskúfun sem kæmi í staðinn fyrir réttarkerfi og hvert einasta fyrirtæki hlýddi boðum skrílsins. Oft útskúfuðu fyrirtækin einstaklingum sem höfðu gert sig seka um vafasamt framferði en stundum einnig saklausa því skýrleikareglan um kærur gilti ekki á þessu sviði. Þar kom að búið var að útskúfa öllum í örsamfélagi sem hægt var að útskúfa og þá tók við útskúfun vegna hugsana. Nú skyldi útskúfa hinum hættulegu, þeim sem voguðu sér að fylgja ekki straumnum. Svo fullkomlega sjálfsagt þótti útskúfunin að fólk fylltist vandlætingu við hvert orð sem ekki var henni með öllu fylgjandi. Tekið var til við að útskúfa hinum bestu. Af hverju héldu þeir að þeir væru eitthvað merkilegri en við hin? Hlaut það ekki að vera hroki? spurði fólk í aleinlægum og fölskvalausum þótta, eða með öðrum orðum hroka.

Þegar líða tók undir lok á þessu tímabili höfðu barnabækur fyllst af yfirlætislegum boðunum, rétt eins og myndir frá Hollywood. Fólk fór að taka eftir því að börnunum fannst barnabækur vera ævintýralega leiðinlegar. Ef börnin voru ekki fyrir hátt hafin yfir það að vera rasistar og áttu trans börn að skólafélögum eða trans fólk að fjölskyldumeðlimum og fannst augljóslega verið að tala niður til sín með þessum boðskap voru þau illa læs og einmitt undirsett fyrir heilbrigt andóf gegn slíkum áróðri og tóku þá til við að gæla við hugmyndir um raunverulegt hatur á minnihlutahópum sem hefðu ella aldrei hvarflað að þeim.

Stjórnmálaflokkar tóku eftir þessu. Sumir stjórnmálaflokkar tóku að herja einarðlega á þá sem höfðu komið sér upp óþoli gegn vandlætingunni og buðust til að veita þeim skjól í hatursfullum faðmi sínum. Klókari stjórnmálamenn og frjálslyndari tóku að leitast við að hreinsa flokk sinn af vandlætingartilhneigingum, enda fældu þær, skiljanlega, vaxandi hluta almennings frá stjórnmálaflokknum. Til varð miðja sem skellti skollaeyrum við vandlætingu og reyndi að tala mannamál, sleppa öllum hneykslunarköstum og stæra sig ekki af fullkomlega eðlilegu umburðarlyndi. Forðast sjálfsupphefjandi skrúðgöngur til sýningar á dyggðum. Einn slíkur flokkur náði forystu. Hinum vandlátu brá illa í brún þegar fólk tók að fullyrða við þá feimnislaust að vandlæting þeirra væru seigdrepandi leiðindi. Hinir vandlátu tóku andköf af vandlætingu þegar þeir voru fræddir á því að það væru þeir sjálfir sem væru ábyrgir fyrir vaxandi fylgi við hreina andstæðu vandlætingarinnar. Andköfin dugðu skammt. Söguskoðunin festi sig stöðugt betur í sessi. Fólk varð undrandi á fyrirhyggjuleysi hinna vandlætingarsömu. Sem tóku andköf sem ekki dugðu.

Þegar hér er komið sögu var tekið að halla mjög undan fæti fyrir vandlætinguna, enda þótt hún væri sjálfbær, léti fólki líða vel með sjálft sig og hefði átt að breyta heiminum, sem hún gerði, bara mest til ills. Það mátti sjá glitta í endalok skeiðsins. Hinir vandlætingarsömu í Bandaríkjunum voru teknir að steinþegja yfir afleiðingum gjörða sinna og undrum sætti að þeir hefðu ekki séð andsvars-ofstækið fyrir þegar þeir sjálfir áttu þátt í að búa það til.

Þegar litið er í kringum sig í dag má sjá hin andlegu lík stráð út um víðan völl, þá sem vandlætingin hefur lagt að velli. Þeir liggja þarna í móki þess sem hefur gefist upp á að trúa eigin skynfærum undan stöðugum árásum um skynvillur. Listin og bókmenntirnar eru orðin að sjálfvirkri framleiðslu, ekkert er til sem heitir snilld, nema hjá undanþágupésum sem hylla enn vandlætingarsemina. Þögn ríkir. Dauðamyrkrið er svartara en svartur hundur. Uppgjöfin liggur í loftinu og er öndverð sögulegri framfarahyggju þar sem öllu átti stöðugt að fara fram og ekkert geta klikkað, og ef eitthvað klikkaði var það kallað bakslag, eins og sagan myndi fyrr en varir hrökkva aftur í gírinn og aka upp ímyndaða brekku í stöðugri framför sem ekki var afturför.

Þarna er einn. Hann liggur þarna og það er svo augljóst að honum hefur verið útskúfað að það tekur því ekki að nefna það. Hann liggur á hliðinni á götunni í grennd við Kærleikastrætið. Augun eru opin. Allar götur eru stráðar ímynduðum líkum. Hin andlega reisn fer sem laumulegast um og aldrei að vita hverju hún getur tekið upp á. Stöku skelkað andlit segir með svipnum: Var vandlæting mín ekki uppfinning?