Úr leik

Ég sé að hinir og þessir eru að gefa út bók, í nokkurra daga heimsókn minni á fésbók. Þakklátir, glaðir, uppmundir. Með í leiknum.

Ég veit ekki hvort ég sakna þessa leiks. Skulda engum neitt og ekki heldur þakklæti.

„Glaður láttu traðka á þér, þeir gera það sem er þér fyrir bestu.

Gerðu þér það upp uns er þér ekta, þakklætið, því þakklæti er jú fyrir mestu.“

Menn stofna bókaforlög og finnst sem þeir fari um með nokkurri tign en ég veit ekki hversu tignin er mikil svona rétt áður en bókaforlög fara á hausinn, sem þau gera á endanum. Virðist svona heldur lágt risið á tigninni og þeim mun meira haldið í síðasta aurinn og gefið út — afsakið mig — nóg af nefkláðabókmenntum.

Við erum stödd á hugmyndalegum flekaskilum. Kapítalisminn ræður öllu, líka skáldskapnum, og hann hefur runnið inn í merg og bein hjá ólíklegasta fólki, kannski einmitt þeim sem hafa hæst um að þeir láti ekki peninga stjórna lífi sínu.

Enn hafa þessir höfundar ekki komist að því að kapítalisminn getur reynst harðari húsbóndi en ríkisrekni komúnisminn austan tjalds forðum og langt er í að þeir átti sig á að listamannalaun geta reynst ekki annað en fátæktargildra sem er erfitt að sleppa út úr.

Margur heldur síðan mig sig og sér hverja einustu hreyfingu sem auglýsingatrikk, kynningarstarf. Fólk ræktar „tengslanetið“ eins og enginn sé morgundagurinn og er ekki enn farið að gruna að eftir því sem orðin eru lengri, svo sem „greiðsluþátttaka sjúklinga“ en ekki „borga“, þeim mun vélráðari eru þau og „tengslanet“ er skrautyrði yfir „klíku“ sem í versta falli getur merkt að svíkja sjálfan sig og eigin gildi fyrir innihaldsleysið. Ekki endilega með því að gerast „sellout“ heldur rétt sisvona af gáleysi og sem værukærislegast. Allir vita að „þekkt andlit“ selja betur en fólk sem er „bara rithöfundar“ og langt síðan fólk fór að gera sem minnst úr því að það væri nokkrir rithöfundar. Eiríkur vinur minn sagði forðum um framboð Gísla Marteins til borgarstjórnar að hann hefði fengið margra ára kosningabaráttu gefins frá ríkinu. Ég veit ekki hvað það ætti að vera annað en rétt hjá Eiríki. Merkir ekki endilega að viðkomandi skrifi slæmar bækur þótt hann sé þekkt andlit en það merkir að ekki nokkur hræða trúir lengur á „innihald“. Innihald? Hvað er það eiginlega? spurði Susan Sontag í „Gegn túlkun“ og það var gild spurning.

Mér finnst eiginlega bara gaman að horfa á blessuð börnin vera með í leiknum, grandalaus og saklaus, á öllum aldri, og ég renni til þeirra blíðlegu úlfsauga mínu og brosi í kampinn. Ég er búinn að fá að vera með í leiknum.

Neðanjarðar ólgar ýmislegt meðan flekaskilin bifast til og allt er mögulegt í heimi eins og þeim sem við lifum í núna, líka það allra jákvæðasta.