Ef ég skyldi nú finnast urðaður í gjótu eða ekkert heyrast til mín eða sjást eða lenda á vonarvöl, rægður og smáður, þá er það vegna þess að mér varð það á að rétta valdsmanni höndina í veislu eftir að hann hafði látið eins og ég væri loft svo það var æði áberandi, einkum þegar lofttegundin ég lagði orð í belg eða gaf með öðru móti til kynna tilvist sína (við skulum bara kalla valdsmanninn H.M.S Ástráð svo örugglega enginn viti hver var á ferð) og hann rétti ekki fram hönd til baka heldur faldi hana þvert á móti aftan við bak eins og hún hefði að geyma eitthvað skítugt, kynni að visna þá og þegar og detta af, og þegar ég spurði hann hvort hann hygðist rétta fram hönd á móti eða slá á útrétta hönd sagðist hann fyrirlíta mig. Ég sagðist reyndar fyrirlíta hann sömuleiðis en það kæmi ekki í veg fyrir útrétta hönd mína. Hann sagði þá að ég hefði logið og enga iðrun sýnt. Ég sagðist hafa sagt satt og fólk ætti ekki að iðrast þess að segja sannleikann (sem var algert aukaatriði, að gefnu tilefni og á hreint allra vitorði: að flestir kennarar í einni háskóladeild tilheyrðu sömu fjölskyldu fyrir tíu árum síðan — þetta er í meira lagi langrækið — allir vissu en ekki mátti segja það upphátt heldur bugta sig og beygja fyrir valdinu þegar það brýndi raust og byrsti sig eða lét þegna sína um það fyrir sig).
Ef ég skyldi nú finnast sjórekinn einhvers staðar er það út af því að ég ber ekki þá lotningu fyrir valdi og valdsmönnum sem þeir vilja láta bera fyrir sér og skeyti því engu þótt þeir sjái sér sæmandi að nota vald sitt til að ná sér niður á mér, enn og aftur. Og vegna þess að sannleikur er lygi og lygi sannleikur, hvítt er svart og svart er hvítt og fólskuverk dyggð, en maður réttir þó hönd sína hverjum sem manni sýnist og skelfur ekki á beinunum yfir því og þótt höndin verði kannski falin aftan við bak tala verkin sem hún fremur eða lætur óunnin sínu máli og auðvelt að ráða sér Pólverja eða Albani í skítverkin. Ég held að gjótuvist væri ágæt.
Þannig er það, einfaldlega.