Vegamót

„Þú ert leiðinlegur og bitur rithöfundur,“ sagði kúlturbarn eitt við mig úti á svölum á bar þangað sem það hafði elt mig uppi fyrir nokkru síðan til að reykja og tjá mér sitthvað um staðreyndir tilverunnar.

„Viltu að ég svari þessu eitthvað?“ sagði ég á móti við kúltúrbarnið, sem starfar reyndar sem „athyglisvörður“ hjá fjölmiðli og hefur reynst einkar ættrækin í því starfi eins og ég nefndi við hana í samtalinu. Eins og títt er um slík álítur kúltúrbarnið það hápunkt tilverunnar, á við paradísarvist, að komast framhjá Lykla-Pétri fjölmiðlanna og inn í Eden. Hvað getur verið merkilegra?

Kúltúrbarnið tjáði mér þá að ég gerði allt til að „komast“ í DV, og virtist meina það á þann veg að það væri árangur, sem kúltúrbarnið sem sé álítur vera, fremur en eitthvað á borð við að „lenda“ í einhverjum ótilgreindum hring helvítis hjá Dante án þess að hafa til þess sáð. Fremur en að vera hundeltur á röndum til notkunar í klikkbeitur. Ég hafði haft nokkur orð um efnið sem þá var í deiglunni á mínum síðustu stundum á fésbók af því að mamma var veik og lá í rúminu um jólin og ég var heima með henni og hafði ekkert að gera og leiddist. Mig minnir að ég hafi verið sérstaklega málefnalegur, jafnvel fyndinn. Ekki þó í allra augum.

Gott ef ég svaraði ekki kúltúrbarninu eftir að það hafði legið á sama fjandans lúalaginu lengi vel og tönnlast á hvað ég væri leiðinlegur, gott ef ég sagði því jafnvel þó nokkuð til syndanna og hafði ég þó varað barnið vandlega við því að vera að þessum árásum sínum. Mig minnir að þó nokkur flokkur kúltúrbarna hafi strunsað á dyr að svo búnu, í meira lagi fúll. En hvað kemur mér það við?

Áðan fór ég á húsfund. Hann varðaði talsverðar framkvæmdir sem kosta heilmiklar upphæðir. Að öðru leyti er ég á kafi í dánarbúi móður minnar sem ekki hafði um síðir veikindi sín undir eftir jólin. Ég sakna hennar. Miðjan er horfin, besta vinkona mín er horfin. Ég kynni ekki einu sinni móðurmálið ef ekki væri fyrir hana.

Á húsfundinum sem haldinn var hér í götunni var norskur verktaki sem byrjaði á að veifa framan í mig eintaki af Merkingu eftir Fríðu Ísberg, sjálfsagt ekki alveg ótengt því að ég hef verið óspar á að belgja mig út hvað ég sé mikið kúltúrbarn og bara kúltúrmaður yfirleitt og hafi góð sambönd. Maðurinn er orðinn dauðhræddur við mig, sem var einmitt ætlunin. Hann hafði aldrei heyrt þessa höfundar getið og ég fræddi hann nokkuð um Fríðu. Ég sagði að hún væri ekki góð í íslensku og viðurkenndi það jafnvel sjálf að svo væri í viðtölum, enda væri hún ekki alin upp á menningarheimili. Ég sagði að plottið og sagan væru góð og að hann gerði vel í því að horfa á þættina Black Mirror á Netflix fyrir eða eftir lestur því líkt og fjöldi suður-amerískra skáldkvenna sem komið hefði fram á undanförnum árum væri Fríða undir áhrifum frá þeim. Svo virðist sem Fríða hafi slegið í gegn í Noregi. Vel get ég unað henni þess. Það er galli að hún geti tæpast skrifað góða íslensku, hugsunin er skýr og flott en hún á ekki orð til að miðla henni, né heldur raunverulegan stíl, hvað sem líður skálduðum stéttskiptum orðræðum í framtíðinni, en hver veit hvernig þetta kemur út í þýðingu og formskynið er ljómandi gott og málsniðsvitundin líka, spádómsgáfan er í lagi. Svo mikið veit ég að Fríða var svo almennileg — nú, eða bara einlæg — að viðhafa nokkur góð orð um þýðingu mína á Alejöndru Pizarnik á netinu. Ég var auðvitað þakklátur fyrir það, svona að svo miklu leyti sem þakklæti er ekki löstur, en komst ekki hjá því að reka augun í það að textinn var skrifaður á tungutaki sem hvert einasta af mínum börnum hefði haft eitthvað út á að setja, líka 12 ára sonur minn.

Nú var reyndar fleira rætt á húsfundinum, sem öfugt við flesta húsfundi var haldinn úti í garði, og flest orð voru dýrari en þau sem snerust um bókmenntir, raunar svo rándýr að framkvæmdagleði orðanna gekk nokkurn veginn af mér dauðum þótt ég bæri mig vel. Orð eru dýr. Framkvæmdir við hús eru talsvert dýrari.

Að loknum húsfundinum fór ég á Óðinstorg og fékk mér bjór í sólinni. Ég er nokkurn veginn algerlega viss um að Dagur B. Eggertsson sætir einhvers konar atlögu um þessar mundir og ekki sömu atlögunni og venjulega. Einhver innan hans eigin raða vill losna við hann. Gagnrýnin sem hann fær kemur ekki úr venjulegu áttunum.

Að loknu Óðinstorgi fór ég á Vegamót. Þetta gamla ruslabæli þar sem meindýraeyðir Reykjavíkur var áður til húsa. Og við ruslakallarnir, ég og tveir götusóparar, einn gamall morðingi og fleira vafasamt fólk. Þarna úti fékk ég mér að borða, en á leiðinni inn rak ég augun í mikið bókasafn í gættinni. Þarna voru þá komnar allar ritraðirnar sem ég rembist eins og rjúpan við staurinn alla daga við að grisja svo ég hafi pláss fyrir allar þær bækur sem ég á eða gæti eignast. Guðmundur Friðjónsson er þarna hafður til skrauts í sínu fallega bandi. Veit nokkur hver það var? Veit einn einasti gestur staðarins að Sigurður Nordal tók Guðmund Friðjónsson fram yfir Einar Kvaran sem Nóbelsverðlaunakandídat Íslendinga í mikilli ritdeilu á sinni tíð, áður en Sigurður gekk til liðs við Halldór Laxness? Það efa ég. Þarna var líka ritsafn Jóns Trausta. Til skrauts. Eins og bitur vindur sem blæs og er hafður að jólaskrauti.

Hvað um það. Ég settist út. Þar sátu fyrir nokkrir tattúveraðir og sólgleraugnalagðir strákar. Einn þeirra sagði upp úr þurru:

„Ég er að lesa biblíuna. Það er algerlega málið að lesa hana. Ég er kominn á kafla þrjú. Er með hana opna á Safari.“

Hann var mjög ánægður með þetta. Hinir frekar uppnumdir.

Mér varð hugsað að hann væri á betri leið í sjálfsmenntun sinni en margur grunnmenntaður spekingurinn sem belgir sig út af þeirri stórmerku uppgötvun að það sé enginn kall uppi á skýi, margur oflaunaður tækifærismennskupésinn sem siglir grunnsævin þöndum seglum með þá uppgerðu sannfæringu í skuti að það þurfi að hefta feðraveldið, eða hvað það heitir hverju sinni, eins og hann sé ekki hluti af því, og að hann sé einmitt viskufjall og yfirfemínisti og þurfi kvenkyns undirfemínista og klappstýrur á lægri launum sér til aðstoðar við að rjúfa kúgunarferlið með orðkynngi og klórar sér í pungnum, drýldinn og digurbarkalegur á svip, hefur aldrei heyrt getið um Tom MacDonald og heldur að allur þessi óeinlægi hatursvaðall muni ekki koma illilega í bakið á honum um síðir þegar ungum karlmönnum tekur að leiðast þófið og Incel-hreyfingin nær krafti, sem hún mun gera og er að gera. Hún er að lesa biblíuna. Bíðiði bara.

Því segi ég börnin góð berjist við manninn og brjótið upp húsið hans og rústiði pleisið.“

Ég fékk mér djúpsteiktan Camambert sem var alltof heitur. Sjóðlogandi heitur svo mig verkjar í tunguna, þessa sem kann sér ekki hóf og þyrfti stundum að líma fasta en ætti ella að halda sig afsíðis, svo sem eins og hér. Túristar á næsta borði voru mun hrifnari af Íslandi en biblíutattúgaurarnir sem keðjureyktu uns þeir fóru.

Hvern fjandann voru þessar bækur að gera sem skrautmunir við innganginn og hvernig í veröldinni á ég að velja á milli bóka, í minni eigu og móðurfjölskyldunnar, sem muni lifa og þeirra sem mun bíða endir á borð við að vera skrautmunur við inngang á bar sem þeir helgigripur horfinnar tíðar sem þær eru?

Húsfundurinn var þrátt fyrir allt svolítið skemmtilegur. Þetta voru skemmtilegir strákar. Bækur brenna ekki. Ég er samt að hugsa um að láta á það síðastnefnda reyna.

© Hermann Stefánsson. Öll endurbirting er með öllu óheimil án skriflegs leyfi höfundar og má vænta lögsóknar verði gegn þessu brotið.