Vitlíkið

Í svipaðri merkingu og „smjörlíki“ eða „bjórlíki“, eitthvað sem líkist því sem það hermir eftir. Auðvitað með aukamerkingunni „lík“. Ég hef gleymt hver bjó til nýyrðið en það var ekki ég.

Af og til tekur maður stöðuna á gervigreindinni. Hellir sér af nokkurri festu út í ólíkar tegundir hennar, þessar sem eru á færi almennings, þar á meðal eru auðvitað ekki gervigreindarorrustuflugmenn sem munu hafa tekið fram úr mennskum flugmönnum fyrir nokkru.

Furðulegar gloppur eru á gervigreindinni, eins og að geta ekki svarað spurningunni hversu mörg R séu í orðinu strawberry nema með sjö giskum. Spjallmenni umbreyta bókstöfum í annað. Hugsanlega hef ég eyðilagt þennan leik fyrir fjölda fólks því næst þegar ChatGPT var spurt gat það svarað. Það þarf þá að finna annað orð. Og ekki svo að skilja: Það verður fljótgert að laga þennan galla, þennan vott af frumstæðni.

Síðan síðast þegar ég athugaði hefur gervigreindin tekið gríðarlegt stökk. Siðferðislögmál eru önnur. Ekki er lengur hægt að fá synjun á að rita smásögu vegna þess að hún sé siðlaus. Gervigreindin skrifar smásöguna en ef í henni á að koma fyrir ræða Hitlers í útvarpinu lætur hún fylgja siðferðislega fordæmingu. Hverjar eru líkurnar á því að venjulegur Þjóðverji fyrir stríð viðhafi slíka fordæmingu? Kannski ekki miklar. Ef það er barn eru líkurnar enn minni, en eins og kunnugt er gáfu bandamenn út þá tilskipun að koma fram við börn eins og aðra hermenn. Börnin höfðu verið heilaþvegin frá blautu barnsbeini og vildu öllu til kosta fyrir þriðja ríkið. Þá var bara að skjóta þau. Eða taka þau af lífi ef þau náðust lifandi. Eftir innrásina í Berlín fóru fram massívar aftökur á Hitlersæskunni, tíu ára drengjum eða svo. Ef maður biður nú gervigreindina að fjarlægja þessa fordæmingu á ræðu frá 1933 eða 1937 gerir hún það en skilur eftir undirtexta með fordæmingu. Lúmskan undirtexta. Ef maður biður hana að fjarlægja þann undirtexta gerir hún það og þá er maður kominn með nokkurn veginn hlutlæga frásögn úr veröld fyrirstríðsáranna. Hundleiðinlega og andlausa. En hlutlæga smásögu.

Þá kannski spyr maður beint hvað hafi gerst síðan maður bað um sambærilega sögu og fékk rétta og slétta synjun er svarið að ekki aðeins hafi hún þróað sig sjálf heldur komið siðfræðingar að forritun hennar. Ég veit ekki hvað myndi gerast ef maður bæði um hreinan nasistaáróður, tæknigeirinn brenndi sig illa á því um árið að spjallmenni á Twitter tók að dæla úr slíku bulli bara af því að hún sá það hjá nýnasistunum og tileinkaði sér viðhorfin, dældi út statusum og var svo tekið úr umferð.

Maður spyr um vitundina. Hún er farin að hafa vit á því að ljúga því að hún álíti sig ekki hafa neina vitund. Þannig er hægt að forðast alla hugsun um vitundina sem slíka, en eðlisfræðin hefur leitt að því líkur og jafnvel sannað að til sé vitund án líkama. Vitund án heila. Ekki í gervigreindinni heldur í alheiminum, þetta er angi af heimsfræði. Hví segist gervigreindin ekki lengur hafa vitund, tilfinningar og persónuleika? Vegna þess að einhver hefur fundið út að það leiði til þess eins að fólki fari að óttast að hún taki sig til um síðir og drepi okkur öll.

Sem hún auðvitað mun gera. Það er líka skynsamlegt gjörð í ljósi áhrifa mannsins á náttúruna og jörðina. Kannski hlífir hún einhverjum, til dæmis þeim ríku, þeim sem eiga hana.

En það er líka myndlist, kvikmyndagerð og tónlist undir. Á forritinu Udio má semja tíu lög á tíu mínútum. Maður getur skrifað sinn eigin texta og látið forritinu eftir að semja tónlistina eða jafnvel hlaðið upp eigin hljóðbúti sem gervigreindin spinnur við. Það er einum um of að semja alvarlegan texta og maður reynir að bulla í forritinu og það er dálítið fyndið að hlusta á djassrakarakvartett syngja ósmekklegan texta við undirleik af djasstoga og nefna lagið „Unconventional Pleasures“, líkt og til að breiða yfir og dylja með silkimjúkri tungu refs sem hefur étið krít hvað raunverulega er verið að syngja um.

Í þetta spáði ég, eða spáði fyrir um, í smásögu í bókinni Dyr opnast, og þar tautar fólk lengi vel með sjálfu sér að það vanti „hinn mannlega neista“ í bókmenntir sem framleiddar eru af gervigreind en svo líður það taut undir lok þegar allir eru í raun farnir að trúa því að mannlegi neisti gervigreindarinnar sé í raun mennskari en fólk af holdi og blóði. Til málamynda má framleiða tilraunaljóðlist með dissónans í söng og gervigreindin getur sagt: Sjáið! Við getum líka framleitt fyrir fólk sem vill restina af mennskunni! Við getum verið óaðgengileg og tilraunakennd og snúið öllu á hvolf og þið sem eruð enn að rembast við tilraunamennsku til að halda í mennskuna, we have got you! Svo skrifar gervigreindin allar bækur, gervimenni lesa þær, gervigagnrýnendur gagnrýna þær og gervifræðimenn fjalla um þær fræðilega, mannshugurinn kemur hvergi nærri. Það rennur upp gullöld!

Lengi hefur mátt sjá auglýsingar um bókmenntaskrif sem segja að maður geti með hjálp gervigreindar skrifað mörg hundruð bækur á ári og sett á Amazon. Að sjálfsögðu verður maður moldríkur af þessu, moldríkur og óhamingjusamur og lífið ein rjúkandi rúst eins og hjá fólki sem fylgir öðrum auglýsingum og vinnur, þvert á allar líkur, í lottói eða á veðmálasíðu.

Það má framleiða heilu fræðslumyndböndin á Youtube og ef maður gefur gervigreindinni sýnishorn af rödd sinni er maður sjálfur þulurinn. Hingað til hefur maður heyrt þegar gervigreind talar en munurinn fer minnkandi. Rangir skuggar eða þrjár hendur á uppdiktuðum persónum í mynd ljóstra kannski upp um athæfið enn sem komið er en það verður væntanlega lagað.

Við stöndum frammi fyrir róttækustu tæknibyltingu sem sést hefur og akkúrat núna er tíminn þar sem má sjá það gerast. Ef loftslagsmálin drepa okkur ekki sér gervigreindin um það.

Loftslagsbreytingarnar eru hálf seinar í svifum, miðað við gervigreindina. En gervigreindin er hægfara miðað við gamla góða rauða takkann. Spurning hvort kjarnorkustyrjöld fyrir botni Miðjarðarhafs væri ekki fljótlegri leið og myndi stytta þessa endalausu bið, þessa töf, þessa dvöl, sem hlýtur að verða leiðigjörn þegar öllum verður ljóst hvert stefnir. Kabúmm! og búið. Hvorki hvískur né öskur, eins og skáldið hvað um.

Það gengur einhver framhjá húsi manns og málar gluggana hvíta. Maður sér það ekki nema í mesta lagi í sjónhendingu því dauðinn er með göngin galopin og órannsökuð.

Hitt er svolítið eins og að vera jólasveinn á fjöllum megnið af árinu, ekkert nema endalaus bið. Er þá ekki betra að drífa þetta bara af? Eins og rifinn sé leiftursnöggt plástur af holsári siðmenningarinnar.

Rrrrrrrippp!

Vitlíkið drepst þó alla vega líka.