Ég veit ekki hvaða lýsing væri best á Bergþóru Gísladóttur sem jarðsett var í gær, mánudaginn 28. júlí, og ósennilegt að mér tækist betur til en eiginmanni hennar, Erling Ólafssyni, sem flutti minningarorð um hana í Fossvogskirkju, sem má segja að hafi verið mannlýsing, eins auðugar og slíkar geta verið, nú, eða hvað þá Bergþóru sjálfri í óútgefnum æviminningum sem Auður Lilja, dóttir þeirra, las upp úr. Eiginlega má segja að ég hafi sjaldan kynnst Bergþóru betur en í útförinni því það var svo margt sem ég vissi ekki um hana.
Fyrst kynntist ég Erling. Hann kenndi mér sögu í gagnfræðiskóla. Ég get ekki sagt að mér hafi líkað vistin í þeim skóla og ég var svo óheppinn að vera ekki til neinna vandræða né hafa nógu slæmar einkunnir til þess að hafa meira af Erling að segja, en hann kenndi einkum krökkum sem áttu erfitt uppdráttar. Ég man engan annan kennara sem sýndi tónlistarhlustun minni nokkurn áhuga, hvað þá hvatningu, eins og Erling, en mér þótti tónlistin sem spiluð var í skólanum hræðileg. Sögukennarinn reyndist þekkja hljómsveitina The Fall, sem kom gersamlega flatt upp á mig því það gerði enginn skólabræðra minna og varla nokkur sem ég þekkti. Ég hitti hann með plötu í poka úr Gramminu og hann spurði og var ánægður með að ég hlustaði á svona góða tónlist. Mömmu þótti það ekki, hún hafði skemmtileg uppnefni yfir það sem ég hlustaði á, nágaularann og öskurapann og gott ef The Fall kallaðist ekki baularinn. Ég man ritgerð sem ég skrifað hjá Erling um spænsku borgarastyrjöldina, nýkominn frá Spáni, og fékk 10 fyrir, sem hafði ekki gerst áður, og sérstaka útlistun í bekknum. Þetta var ekki minn vanalegi bekkur, eiginlega fannst mér hinir svokölluðu vandræðaunglingar áhugaverðari félagsskapur en A-bekkurinn minn, og svo mikið var víst að þau voru með besta kennarann.
Svo kynnist ég Gísla. Í gegnum hann kynnist ég Bergþóru, mömmu hans, og þá kemst ég að því að hún og Erling eru par. Þau voru tíðir gestir á tónleikum hjá 5tu herdeildinni, þar sem ég spilaði á ýmislegt, og eiginlega fannst mér eins og þau væru par sem væri duglegt að sækja menningarviðburði, duglegt við að hugsa og velta fyrir sér hlutunum, óvenjuleg og áhugaverð og dugleg. Einhver fítonskraftur í Bergþóru sem ég kom ekki fyrir mig hvaðan væri ættaður, enda vissi ég ekki einu sinni í fyrstu að hún væri úr sveit né hvernig lífshlaup hennar hefði verið. Þarf maður að vita það til að kunna vel við fólk og finna einhverja sterka tengingu við það? Ég vissi fátt um vinahópinn og áttaði mig svo sem ekki á honum fyrr en í útförinni, þar sem því fór þó fjarri að ég þekkti marga. Manni finnst maður vera hálfgerð boðflenna í útför, slík athöfn er eiginlega einstök blanda af því persónulega og hinu opinbera, með fjölskyldu og nánum vinum, en hristi af mér þá kennd, ég vildi bara af einlægni votta Bergþóru virðingu sína. Útfarir eru mikilvægar og þessi var einstaklega falleg, bæði orð, tónlist og myndir. Bergþóra dó með reisn, ætla ég að leyfa mér að segja, en slíkt er kúnst og ekki ætla ég að segja frá því í hverju hún felst hér, þótt á þetta blogg komi jafnan fáir. Ég bar stundum, eins og maður gerir með mæður vina sinna, Bergþóru saman við mömmu, sem þó var nokkru eldri, jafnmikill lestrarhestur en úr ólíku umhverfi komin. Kannski gæti ég allt eins borið hana saman við Huldu á Höllustöðum, vinkonu mömmu, sem var ógleymanleg kona eins og Bergþóra, og einstaklega merkilegur rithöfundur, en til er prívatútgáfa af skrifum hennar í tveimur bindum og hún lét engan segja sér hvað hún ætti að skrifa og hvað ekki og dró skrif sín bara til baka ef viðkomandi tímarit hugðist segja henni fyrir verkum eða skipa fyrir eins og hundi. Bergþóra skrifaði frjálst og hún var ritfær og eldskörp. Mér fannst mínar eigin bækur eiginlega varla komnar út fyrr en hún hafði skrifað þanka sína um þær, já, það er reyndar sjálfhverft, en hún skrifaði aldrei neitt skrum.
Bergþóra var lesandi. Alin upp á tíma þegar lesandi bóka var meira atriði en nú gerist. Hún var sílesandi. Raunar hefur hún ekki síður verið sífellt hlustandi og tónlist hefur verið sterkur þáttur í hennar lífi. Hún bloggaði um það sem hún las á bloggi sínu og það sést strax á síðustu færslunni hvernig hún færði hug sinn í orð og hvernig hún valdi sér lesefnið. Torfhildur Hólm? Ég veit ekki um marga nútíma bókabloggara sem myndu velja sér höfundarverk hennar að lesefni. Kannski út af hljóðbókasafninu. Og þó. Einhverju sinni réðist ég þó sjálfur til atlögu við bækur Torfhildar og mér þóttu þær ekki árennilegri en Bergþóru fannst, biskupasögurnar torf sem ekki var fyrir hvern sem er, en ég komst þó einmitt að svipaðri niðurstöðu og hún um sumar aðrar bækur Torfhildar: Þegar öllu var á botninn hvolft voru þær ljúfir rómanar um siðferði og trú og eru með rómantísku ívafi. Bergþóra hafði skerta sjón síðustu árin og hlustaði á hljóðbækur. „Ég hef ákveðið það með sjálfri mér, að hugsa og tala um bækur eins og þær séu fólk, lofa þær ekki né lasta , hvað þá afgreiða þær með innihaldslausum stigbeygðum lýsingarorðum“, segir hún á einum stað á bloggi sínu. Slíkt segir ekki nema manneskja með sjálfstæðar skoðanir og sína eigin heimsmynd, ekki nema skarpgreind manneskja sem þorir að standa á skjön við tíðarandann.
Athöfnin var allsendis laus við kirkjulegt ívaf. Bergþóra var róttæk. Erling hef ég ekki hlustað á tala á samkundu síðan í gagnfræðiskóla. Frænka mín ein sagði mér að útförin minnti á útför mömmu. Ég sé eftir að hafa ekki verið þrautseigari við að fá mömmu til að fara að dæmi Bergþóru og hlusta á hljóðbækur þegar sjónin dapraðist en tæknin varð henni ofviða. Mér fannst heiður að fá að kynnast Bergþóru og heiður að fá að minnast hennar. Eftir athöfnina í kirkjunni fór ég rétt sem snöggvast inn í garð og heimsótti foreldra mína og systur mína sem eru grafin í grennd við Fossvogskirkju. Svo fór ég líka í erfidrykkjuna. Mér varð hlýtt. Og ég varð hugmyndaríkur. Ég hefði viljað kynnast Bergþóru betur og geri það með því að lesa bloggið hennar en ég giska á að einmitt þannig hafi hún látið flestum líða sem urðu á vegi hennar, að þeim hafi hlýnað og orðið svolítið hugmyndaríkari og djarfari í hugsun.
Ekki gæti ég prjónað jafn fallega vettlinga og eru aftan á útfararskránni þótt ég ætti lífið að leysa. Hrein sköpun.