Lagið verður til

Þetta verður algerlega frábært lag, sagði framleiðandinn. Bókaður smellur. Geggjað lag!

Ekki spurning, svaraði aðstoðarmaðurinn.

Það eina sem okkur vantar núna er einhver til að syngja lagið, einhver til að útsetja það, upptökumann og fólk til að spila undir. Já, og svo vantar okkur manneskju til að semja lagið.

Reyndar, sagði aðstoðarmaðurinn. Það breytir því ekki að þetta verður algerlega frábært lag.

Rétt, sagði framleiðandinn. Hafðu samband við einhvern af þessum sjö til tólf sem semja alla smellina.

Geng í málið, sagði aðstoðarmaðurinn.

Finndu svo söngvara. Hafðu hann blankan. Gakktu úr skugga um að hann sé meðfærilegur. Láttu hann hafa sterkar skoðanir en bara á einhverju sem allir hafa sömu skoðun á. Láttu hann vera á móti Trump. Láttu hann vera sterklega andvígan nauðgunum og barnaníði og hafðu hann ungan þannig að hann trúi því að þetta séu róttækar skoðanir, ekki eitthvað sem allir með nokkra rænu séu sammála um.

Roger, sagði aðstoðarmaðurinn.

Veifaðu framan í hann gyllivonum svo að hann haldi að hann komist eitthvað. Hafðu hann trúgjarnan þannig að hann geti trúað því að lagið sé að einhverju leyti eftir hann ef hann gerir þrjár eða fjórar breytingartillögur í stúdíóinu.

Einmitt, eins og venjulega, sagði aðstoðarmaðurinn.

Bókaðu tíma í stúdíói, sagði framleiðandinn. Hafðu það flott stúdíó. Bókaðu kynningarherferð þannig að allt líti út fyrir að vera sjálfsprottið. Ef söngvarinn er með einhverjar edgy skoðanir sem vega að tilverugrundvelli okkar, þá, þú veist, það á að vera andóf í honum en samt ekki … þú veist.

Einmitt, sagði aðstoðarmaðurinn. Ég ræð nokkra sessjónleikara. Og textahöfund. Sem skrifar textann þannig að það er eins og hann snúist um einkalíf söngvarans. Ég leiði þá saman. Eða þau. Viltu karl eða konu? Söngvara eða söngkonu?

Skiptir ekki máli, sagði framleiðandinn. Hann eða hún má hafa dass af skoðunum á kynjamálum en samt ekkert sem meikar diff. Styðja kynsegin fólk. Vera jafnvel kynsegin en helst ekki. Bara að ota því fyrir framan sig í röðina, skotlínuna, nota sem mannlegan skjöld. Markhópurinn er fólk sem Trump ætlar að láta hverfa.

Sem sé fólkið sem bjó til Trump? spurði aðstoðarmaðurinn.

Einmitt, sagði framleiðandinn. Þú ert fljótur að kveikja.

Þetta skotgengur eins og venjulega. Heldurðu að lagið geti verið tilbúið eftir viku?

Veistu hvað? Ég held að það gæti orðið plata úr þessu, sagði framleiðandinn. Eigum við að gefa þessu mánuð?

Frábært! sagði aðstoðarmaðurinn. Þetta er sama og tilbúið.

Flott! Finndu söngvara og plantaðu hjá honum grillum um að hann sé frægur. Þá verður hann frægur. Hafðu samband við fjölmiðla.

Tékk!