Í fyrsta lagi skyldi ekki taka of mikið mark á því sem fólk segir um annað fólk því það er yfirleitt að tala um sig sjálft og það sem fer í taugarnar á því sjálfu við sjálft sig og varpa því yfir á aðra.
Í öðru lagi er ekki mannkostur að vera umtalsillur, sýnir fyrst og fremst eigin vanmetakennd og þörf fyrir að upphefja sjálfan sig — og er tímasóun. Fyrst enginn er fullkominn, til hvers þá að tíunda galla náungans í sífellu?
Í þriðja lagi þegir fólk eða talar gagngert í því skyni að hindra að það missi spón úr aski sínum. Það er mennskt og maður skyldi ekki fara offari í að fordæma það. Enda þótt metnaður geti hæglega leitt út í oflæti og þögn þannig verið til marks um oflæti.
Í fjórða lagi eru kynslóðirnar ólíkar að eðlisfari. Tíðarandi skekur andrúmsloftið og það er býsna erfitt að hefja sig upp yfir eigin tíðaranda. Hann vill renna manni í merg. Ofan á það bætist að æskan er jafnan viðkvæm fyrir því að ellin lætur eins og hún hafi séð allt áður og komi ekkert á óvart, sem er skiljanlegt að fari fyrir brjóstið á æskunni því allt er nýtt þótt eitthvað svipað hafi sést áður. Ofan á það bætist að ellin er jafnan … ekki viðkvæm heldur stundum allt að því pirruð yfir því hve æskan sé uppnumin yfir ósköpum sem margoft hafa sést áður og láti eins og nýjabrumið sé nýsleginn túskildingur þegar það á sér forvera í eldri túskildingi. Þannig kemur æskunni og eldri kynslóðunum aldrei saman til fulls. En engu að síður er samband þar á milli mjög mikilvægt.
Í fimmta lagi er ekki hægt að segja að ástand heimsins sé beinlínis beisið. Hatur getur af sér hatur og morð leiða til morða og meira haturs og fleiri morða og stríðin geisa eins og þeim sé borgað fyrir það, sem er enda tilfellið, og mergðarmennin græða á fyrirlitningunni sem minnihlutarnir hafa sýnt mergðinni og væri auðvelt að segja að hvor um sig uppskeri eins og hann sáði en þó er aldrei að vita hvenær jörðin skekst til undir fótum okkar og alger bölsýni er ekki aðeins sálrænt óhagnýt heldur eru nokkrar líkur á að hún reynist innistæðulaus þegar upp er staðið. Við sjáum þrívídd á tvívíðum fleti. Í raun og veru renna lestarteinarnir tveir ekki saman úti við sjóndeildarhring heldur virðast þeir bara gera það þegar maður horfir án dýptarskyns á þrívídd á tvívíðum fleti, staðreyndin er sú að samsíða línur skerast aldrei. Sú kenning hefur að vísu verið afsönnuð með eðlisfræði en það var of flókinn útreikningur til þess að ég skildi neitt í honum. Lítið er við því að segja þegar maður heyrir að hlutirnir geti ekki endað nema á versta veg, nákvæmlega eins og til er efnt, að þjóðarmorðin rætist og ofbeldið breiði úr sér og að efstu dagar nálgist hraðstíga. Varla fer maður að neita svo raunsærri sýn eins og einhverri vitleysu. Né heldur gerir mikið gagn að skrifa um það eins og maður ætlist til þess að hindra það, ekki bara lýsa því.
Í sjötta lagi hef ég verið kallaður skítbuxi, snælduvitlaus, helvítis asni, fjábjáni, furðuverk, arfalélegur húmoristi, höfuðfylli samansafns rangra skoðana og afvegaleiddra ályktana, forljótur andskoti, fitukeppur og bumbukall, apaheili, rónaskítur, ömurlegasta dæmi mannlegrar tilvistar sem fyrirfinnst á þessari jarðkringlu og kúkalabbi — en hví skyldi ég kippa mér upp við það, ég hef aldrei verið snokinn fyrir skjalli.
Í sjöunda lagi skrifaði Thomas Mann ekki um neitt nema hundinn sinn meðan styrjöldin geisaði árið 1918. En hann skrifaði ekki Herr und Hund til þess að geta forðast að horfast í augu við hlutina. Hann skrifaði þessa tímalausu og upphöfnu sögu fyrir perspektívið. Ekkert, hreint alls ekki neitt, er án samhengis og viðmiðunar við atferli hunds, við samband hans við eiganda sinn.
Í áttunda lagi veltur svo margt á einu hnusi trýnis.