Fyrirsögnin, tilvitnun í ljóð eftir Þórarin Eldjárn, þekkt við lag eftir Atla Heimi Sveinsson, er röng. Það er að segja: Hún er rétt ef „finna“ merkir leit að íslenskun en röng ef gert er ráð fyrir að svarið sé alltaf til fyrir í íslenskri tungu. Þórarinn er reyndar sérlega orðhagur við einmitt það, að búa til nýyrði á gömlum grunni.
„Gaslighting“ hefur verið þýtt sem „að gaslýsa“ einhvern. Þó er hugtakið merkingarlaust ef maður hefur ekki séð kvikmyndina Gaslight frá árinu 1944. Þaðan kemur hugtakið. Það merkir að sannfæra einhvern í vafasömum tilgangi um að hann/hún sé geðveik eða haldin(n) ofsóknarkennd til að breiða yfir raunverulegan tilgang manns, sem í kvikmyndinni er í meira lagi vafasamur. Gaslýsing er notað hist og her á íslensku og iðullega rangt eða mjög ónákvæmt, jafnvel á stundum til þess einmitt að gaslýsa fólk. Merkingin skilst ekki ef maður hefur ekki séð kvikmyndina. Að geðvæna einhvern væri strax skárra, gagnsærrra.
„Ghosting“ merkir að hunsa einhvern sem maður hefur átt í samskiptum við. Það getur falið í sér fullkomlega eðlileg og réttlætanleg viðbrögð en það er samt ekki íslenska. Ég sé ekki að það sé neitt athugavert við orð eins og sniðganga eða hunsa/hundsa.
Catfish er ensk sögn sem merkir að þykjast vera einhver annar en maður er á netinu, til dæmis á stefnumótaforritum. Íslenska þýðingin á orðinu er nafnorð: Steinbítur. Þetta er iðullega mjög skaðvænlegt atferli og felur í sér blekkingarleik sem oft er siðlaus. Hvernig væri einfaldlega að fylgja ensku nýmerkingunni og tala um að steinbíta fólk? Steinbítur er í senn ljóðrænt og grimmt orð. Hann steinbeit mig gersamlega á Tinder, ég hitti hann aldrei og hann laug öllu um sjálfan sig og stal myndum frá öðrum manni. Væri það ekki eitthvað? Nafnorðið gæti verið steinbeita eða jafnvel steinbeiting. Steinar eru harðir og hart að bíta í slíkan og enn verra að vera bitin(n) af steini.
Hugum að því.