Brautigan

Ég heyrði fyrst getið um Brautigan, sem hér er getið að góðu, í viðtali sem ég held að hafi verið í tímaritinu Teningi og ég held að hafi verið við Gyrði Elíasson. Kannski var það þó annar. Ég hafði alla vega uppgötvað Gyrði með annarri ljóðabók hans, Tvíbreitt (svig)rúm, nánast á barnsaldri, og vildi kynna mér hvað þessi höfundur væri að lesa, enda hef ég lesið allar bækur Gyrðis síðan, líka þá fyrstu sem ég náði mér strax í eftir að hafa keypt númer tvö (reyndar Póesíubók númer eitt komma tvö eins og undirtitillinn er) í bókabúð við aðalgötuna á Akureyri.

Þannig að ég varð mér út um þær bækur eftir Richard Brautigan sem voru til á bókasafninu, fyrst ljóðabókina Loading Mercury With a Pitchfork. Mig minnir að það sé safnbók. Smám saman, eða frekar hratt, varð ég mér úti um allar bækur sem Brautigan hafði skrifað, síðar þar á meðal bókina sem fannst í fórum hans að honum látnum og minningabók dóttur hans um hann og ævisögur, tvær að mig minnir.

Ég las margar af þessum bókum alloft. Að sjálfsögðu ljóðin oft, það er það sem maður gerir við ljóðabækur, en einnig skáldsögurnar. Þegar fyrsta þýðing Gyrðis á Brautigan kom út las ég hana líka til að vita hvernig hann kæmi út á íslensku, sem hann gerði vel. Svo fóru fleiri að þýða Brautigan og mér sýnist að nú sé Gyrðir ekki lengur sá sem mest hefur þýtt eftir Brautigan heldur hafa fleiri bæst í hópinn. Tókýó-Montana hraðlestin kemur út núna fyrir jólin í þýðingu Þórðar Sævars Jónssonar. Þetta er ein af albestu bókum Brautigans og ánægjuefni að svo mikið af höfundarverki Brautigans sé komið út á íslensku. Kannski er það jafnvel óvenjulegt því hann var counter-culture-hetja og ekki endilega hátt skrifaður í fínni kreðsum á sínum tíma. Núna get ég endurnýjað kynnin við þessa bók á íslensku.

Sum ljóð Brautigans kann maður utanbókar og þarf ekki einu sinni að gúggla þau, eins og þetta ljóð hér, sem hefst á fullyrðingu sem síðan er tekin í sundur lið fyrir lið í næstu línum, í lauslegri þýðingu:

Vel að verki staðið, sagði hann og gekk út um dyrnar.

Hvaða verki?

Við höfðum aldrei séð hann áður.

Það voru engar dyr.