Það er engin aksjón og mér drepleiðist. Hundarnir hafa verið kallaðir heim á bæ og eftirleitir eru hafnar, ákveðið var að hafa þær á undan leitum þetta árið og á undan allri smölun af fjöllum og öllum réttum, byrja á endanum, enda á röngunni, það er rok og ég er ekki símasjúklingur.
Samhengi? Hvað varðar mig um það? Aksjón er sletta en ég læt hana standa, svo margt fær að standa sem ætti ekki að standa, svo sem styttur, þær hafa engan tíma til að koma sér í form, eða vilja það kannski ekki, það er aldrei að vita hvaða form þær myndu koma sér í, þríhyrning, átthyrning, eitthvað þaðan af verra.
Það er engin aksjón. Þó vinnum við hörðum höndum að því að þynna út tungumálið og þá ekki síst með því að finna upp ný orð og lengri yfir nákvæmlega sömu fyrirbæri og eldri orð tala um, nema hvað nýju orðin hafa minni merkingu, þau eru ekki gildishlaðin. Og svo ég hleypi öðru ensku orði að, þótt ég vinni að því hörðum höndum að ofsækja enska tungu, var nokkuð það til í fyrri heimsstyrjöldinni sem var kallað „Shell Shock“ og átti við um það trámatíska ástand sem hermenn sneru heim í eftir að hafa legið í skotgröfunum. Í seinni heimstyrjöldinni hét þetta „Combat Stress Reaction“ því eldra orðið þótti of stutt, beinskeytt og með of mikilli merkingu. Eftir Víetnam-stríðið var ákveðið að reyna að ráða niðurlögum þessa ástands endanlega með því að kalla sama fyrirbæri „Post-traumatic Stress Disorder“.
Síðan breiddist það orð út og fór að eiga við um fleiri áföll en að taka þátt í stríði en nýtt orð hefur enn ekki skotið upp kollinum, enda færri á vígvellinum og fleiri við lyklaborðið, það er ekkert trámatískt að sitja við lyklaborð og drepa fólk, fjarlægðin er slík. En orðið hlýtur að koma. Ég spái því að það verði eitthvað á borð við „Emotional Anxiety Disorder via Proximity with Military Actions“.
Sjokkeraður? Ég? Nei, ég hef það fjandi fínt, nýkominn af vígvellinum og er víst með eitthvað sem er of langt og flókið til þess að ég muni það en djöfuls fjör er þarna úti að sprengja fólk í tætlur og ég hef það bara fjandi gott. „Johnny comes marching home“ og er bara drulluhress, bingó og baunir. „Johnny comes marching home“ og hlustar alltaf á sama lagið aftur og aftur en stríðsskaði tilheyrir fortíðinni, í dag er þetta bara venjuleg skrifstofuvinna. „Johnny comes marching home again“ og er reyndar með ávæning af „By Proxy Influence from Genocide Creational Activity in non-free Leizure-Time Syndrome“, en öllu verra þó er að hann er með kvef og það gæti þróast út í lungnabólgu.
Ég sjálfur, hinn raunverulegi ég, ef ég má nefna mig því orði, kenna mig við veruleikann, er svo lánsamur að vinna á skemmtilegum vinnustað og eiga bara ekki rassgat bágt miðað við hvað gengur og gerist í henni stóru og illu veröld. Ég hef ekki lent í neinni aksjón. Ekki stríðs-aksjón alla vega.
Það er engin aksjón, það er samt gallinn, það gerist aldrei neitt, sem samkvæmt meme-inu kallast „Nothing Ever Happens“, og það er sennilega af ætt níhílisma, en samt, andskotinn hafi það, það mætti stundum gerast eitthvað og „þetta er ekki frétt“ er engin markleysa og ekkert þvaður heldur nánast fræðileg staðreynd, flest sem er í fréttum snýst um það sem einhver sagði á Facebook og þau geigvænlegu áhrif sem það hafði um land allt að einhver „hjólaði“ í einhvern og var með engin hjálpardekk.
Það er engin aksjón. Stundum gerist eitthvað voðalegt en þá er það svo langdregið að enginn hefur þolinmæði til að fylgjast með því til lengdar, og stundum gerist eitthvað skemmtilegt og smávægilegt, þannig séð, stórvægilegt á smáum skala, og þá hrekkur fólk í kút því það er búið að venja sig svo vandlega við seigdrepandi vestræn leiðindi að það skilur ekki hvað er að koma yfir það þegar það hlær. Er eitthvað að mér? Er til langt orð yfir þetta? Ég hristist allur, hvað hefur komið yfir mig? Hvaða hljóð berst út fyrir varir mínar, er það dauðahrygla? Ég hef ekki hlegið svona mikið síðan afi dó!
Það er engin aksjón og litla gula hænan hefur fengið sig fullsadda af atorkuleysi samdýra sinna og ætlar að éta allt brauðið sjálf og láta brauðmolana hrökkva niður til siðlausustu milljarðamæringa sem hún finnur, svo lengi sem fjandans dýrin fái ekkert, ekki einn einasta brauðmola með kjarna og korni. Að því loknu hefur litla gula hænan hugsað sér að éta öll hin dýrin í eftirmat. Namm.
Það er engin aksjón en ég tala mannamál. Það er allnokkur kunnátta og talsverð þekking og mikill lærdómur, enda hef ég lagt í námið sál og ár. Þetta er tunga sem er í útrýmingarhættu og margur hyggur að hún hverfi bráðum og ekkert komi í staðinn fyrir hana. Það gerist ekki neitt og ekkert getur endurtekið sig sem ekki gerist yfirhöfuð og því endurtaka sig aldrei neinir viðburðir, það eru engir viðburðir. Trén í garðinum mínum eru farin í verkfall, fuglarnir hafa étið flest berin og bíða eftir að hausti svo berin gerjist og þeir fái sitt árlega fyllerí. Ég legg ekki stund á símavændi og hef það bara fjandi fínt og fór í ferðalag sem ég kannski segi frá síðar á einhverjum stað eða jafnvel staðleysu.
Það gerist ekki neitt en kellíngarnar láta mig í engum friði því ég var nýverið úrskurðaður million dollar babe og get ekki verið annað en hæstánægður með það, sem og tónleikana sem voru tilefnið og plötuna sem er tilefni tónleikana og ég sé ástæðu til að vera talsvert stoltur af, þótt ég hafi ekki samið lögin. Það hefur lengi háð mér hvað ég er myndarlegur, fólk sér ekki mína „innri sál“, og það sem verra er: Ég sölna ekki neitt með árunum heldur verð þvert á móti sífellt myndarlegri. Hví eru guðirnir svona grimmir? Enn verra er að ég verð líka stöðugt skemmtilegri. Einmitt þegar ég hafði sætt mig við hvað ég væri leiðinlegur. Ég verð að stoppa þetta með einhverjum ráðum.
Það gerist ekki neitt og ég hef lyklavöldin að höfðinu á mér og rek þangað inn nefið reglulega og það er tíðindalaust á þeim vígstöðvum, ekkert lífsmark, ekkert nema ummerki um löngu hjágengna stöðnun mína og þá staðreynd að ég er útbrunninn en það skíðlogar samd í eldinum og hann logar og logar eins og honum sé borgað fyrir það.
Það er engin aksjón, orðin lengjast og verða merkingarlausari, enhverjir karlfauskar tauta eitthvað um forréttindablindu og moka kavíar og kalkúnabringum með gullflísum í kjaftinn á sér og masa út í eitt um forréttindablindu allra annarra en þeirra sjálfra, andskotans fauskarnir vinna vafalaust í einhverju ráðuneyti og geta aldrei setið kyrrir á rassinum eins og manni er hollast að gera, eins og hver manneskja sem er ekki hreinlega rænulaus af leiðindum veit upp á tíu.
Það er engin askjón en þessarar spurningar hef ég lengi spurt mig: Er Vonder-Vúman vond? Vond er vúman?