Enn einn dagur er upprunninn og kominn langt á leið og hefur í hyggju að hníga til viðar eins og aðrir dagar og ætlar ekki að láta nokkurn hlut koma í veg fyrir það.
Sjáðu þennan náunga þarna? Er hann raunverulegur eða var hann að stíga af færibandinu, ferskur úr verksmiðjunni? Sjáðu þessa frétt þarna, tja, til dæmis þessa um að það hafi ekki verið fótboltabullur sem studdu Ísraelsliðið sem létu gamminn geisa í Amsterdam á dögunum heldur hafi Arabar ofsótt gyðinga og lúskrað á þeim, þvert á það sem allir sem viðstaddir voru og tóku myndir af viðburðunum segja, er þetta nokkuð lygi? Er ekki of seint að kalla nokkuð haugalygi þótt það sé einmitt og nákvæmlega haugalygi þegar það birtist í virtum og útbreiddum engilsaxneskjum fjölmiðlum? Er ekki tími leiðréttinganna liðinn, eins og Javier Marías hélt fram? Hvenær las maður síðast leiðréttingu á nokkurri frétt? Jafnvel um svona lítið brengl eins og rangt nafn undir grein? Jú, reyndar las ég eina svoleiðis nýlega.
Kominn er nýr dagur og hann er langt kominn. Kannski hálfnaður. Ég kvíði morgundeginum og hef hreint ekki hugrekki til að hugsa einu sinni um daginn þar á eftir, hvað þá mánaðarmótin, þá verður öllu lokið fyrir mér og ég kenni engum um nema sjálfum mér. Er þó alla vega yfir slíkt hafinn.
Enn einn dagur er kominn, rétt eins og í titli góðrar ljóðabókar, „Enn einn dag“, og það má bóka að hann, dagurinn, hefur ekkert gott í hyggju. Sjáðu þessa uppákomu þarna? Er hún raunveruleg, getur nokkrum verið alvara með slíkri uppákomu, eða er hún sviknari en sviknasti héri í kapphlaupi við hlaupagarp þar sem hvorugur kemst spönn frá rassi, er uppákoman spunnin og þvæld? Átti sér nokkuð líkt því sem þarna segir frá sér stað nema í ímyndunarafli þess sem talar? Er nokkuð víst hver talar? Er ástæða til að missa trú á mannkyninu? Eða er fráleitt að yfirleitt láta sér koma til hugar að vænta einhvers góðs úr þeirri átt?
Enn einn dagur er runninn upp og ég er enn að basla við að mála en þó hlusta ég á tónlist og kvarta ekki undan einu eða neinu af svona praktískum málum, skorti á velvild náungans í minn garð eða málefnaþurrð. Ég þykist skilja margt en þó mun ég aldrei botna neitt í barnaníðingum. Hver gerir það? Það er ekki eins og allur þorri fólks gangi um með genastökkbreytingu milli innyflanna og eigi auðvelt með að setja sig í spor þeirra sem það gera. Það er þó gott að maður er ekki barnaníðingur. Gagnvart slíku lamast öll rökvís hugsun og hreinn viðbjóður tekur völdin, einfalt og merkingarlaust: Oj. Það eru ekki góð skipti, á rökhugsun og oj. Gott að maður er ekki fæddur í útrýmingarbúðum eða staddur í styrjöld. Þó gæti orðið breyting á því síðastnefnda fyrr en varir. Mér finnst það svo líklegt að ég hef sætt mig við það. Svona fyrir innri hugarró. Jafnvel endanlega líkamlega ró ef allt fer á allra versta veg.
Ætli maður reddi sér ekki alltaf, þótt fjárhagurinn fari á hvolf bara frekar fljótlega. Maður getur flutt til Grænhöfðaeyja og leigt frá sér góða íbúð. Fullt af fólki á ekki þann möguleika. Fullt af fólki býr við raunverulega fátækt. Það sveltur. Ekki svelt ég. Það er nú aldeilis heilbrigð samkeppni, eða hitt þó heldur. Við flytjum inn þræla til að vinna það sem við nennum ekki að vinna við sjálf. Svo tökum við líka á móti fólki svo við getum æft okkur í mannréttindabrotum.
Sérðu þetta geimfar þarna sem gervigreindin stýrir? Það er víst einhver milljarðamæringur sem ætlar til Mars og stofna þar nýlendu fyrir vini sína. En er hann raunverulegur? Er svo fáránlegur milljarðamæringur fræðilegur og líffræðilegur möguleiki? Er hann ekki sjálfur tilbúningur gervigreindarinnar sem hann bjó til sjálfur? Hver er munurinn á reynd og sýnd.
Enn einn dagur er genginn í hönd og ég hef hugsað mér að gera hlé á bloggskrifum í bili og ég kvíði morgundeginum og hef hreinlega ekki hugrekki til þess að einu sinni ímynda mér að það komi dagur eftir þann dag, enda liggja engar vísindalegar sannanir fyrir um það og má virðast fremur ólíklegt að svo verði en maður tekur þá bara á því þegar og ef þar að kemur.
Maður lætur gnísta í tönnum, bítur þeim saman og brosir og lítur á björtu hliðarnar. Það er til gott fólk. Það er til manngæska. Stundum getur verið djúpt á henni en hún lúrir þarna samt. Jafnvel í manni sjálfum.
Kannski maður halli sér að voninni. Von úr viti.