Einu hef ég enn ekki áttað mig á hér á Hrísateig í höll minni þar sem á efri hæðinni ríkir annar tími innandyra en fyrir utan, skífusíminn stendur á borðinu, útvarpið er Telefunken, ritvélin er Corona og bækurnar safna vigt sinni í reglubundin flóð ofan úr hillunum. Þetta eina er hvinurinn sem kemur þegar hvessir. Kannski er hvinur ekki rétta orðið og nær lagi væri að tala um ískur.
Ískrið er málmkennt og stafar ekki af vindinum sem slíkum einum og sér. Einhverjir myndu kannski brjálast yfir þessu ískri en ekki hann ég. Mér finnst það dálítið notalegt. Á píanóinu hef ég fundið út hvaða tónn þetta er. Reyndar er þetta kvartnóta, stödd miðja vegu á milli A og A#. Ég hefði orðið fyrir vonbrigðum ef ískrið hefði hlýtt tólftónakerfinu möglunarlaust, látið ljóðrænuna og fegurðina lönd og leið og verið hreint A. Auðvitað gæti ég elt hljóðið uppi fótgangandi og fundið út hvað veldur því. Líklegasta raunhyggjulega skýringin er fánastöng. Eða eitthvað álíka.
En maður á ekki að vera neinn Fást og vilja vita allt sem vitað verður og ganga fram með hroka, taumlausum þekkingarþorsta sem engum er til gagns né gamans. Sumt verður ekki vitað, annað þarf ekki að vita og enn annað er skemmtilegra að vita ekki. Kannski geng ég úr skugga um þetta einhvern daginn. Hrísateigur er gata undra og rúmar jafnt auðn og eyðibýli, landslag og borgarsjarma, náttúru og þögn, forsælu og mennska fávisku. Maður giskar. Það er það sem maður gerir.
Svo giskar maður aftur og aldrei á það sama tvisvar í röð.
Þetta dularfulla hljóð setur svip á hverfið, sem er háborg menningar í Reykjavík, einkum eftir að ég flutti þangað, að öðrum íbúum ólöstuðum, því hljóð geta líka átt þátt í svipbrigðum. Svipbrigði á andliti geta falist í hljóði sem berst út um munninn. Munnurinn getur verið í ákveðinni tóntegund.
Ég giska á að hljóðið sé forboði. Það gæti verið vorboði en það kemur líka um vetur. Ég hugsa að ískrið á Hrísateig sé að hluta til váboði en þó blendið, að það sé sambland af viðvörun um yfirvofandi flekaskil í mennskum hugmyndaheimi, hinni uppbyggilegustu bölhyggju sem er með nægilegri kátínu til þess að vera ekki yfirþyrmandi, þrátt fyrir blikur á lofti, og hins vegar glórulausri bjartsýni um þá veröld sem tekur við eftir að flekarnir hafa skilist að, klesst hver á annan og valdið mátulegum og jafnvel nauðsynlegum hörmungum.
Ég velti fyrir mér hvort ég sé eini íbúi götunnar sem heyri þetta hljóð. Það gæti, segði kannski einhver, bent til þess að það sé hvergi til nema í höfðinu á mér en gerir það ekki. Ég átti ömmu. Stundum vaki ég meðan aðrir sofa.
Það er óumflýjanlega fagurt að tónninn skuli vera kvartnóta.