Mansöngvar

Út er komin tvöfalda platan Mansöngvar með lögum og textum Jóns Halls Stefánssonar. Á þriðjudaginn verða útgáfutónleikar í Hörpunni. Um undirleik sér Jón Hallur, sem spilar á píanó og syngur, Ólafur Björn Ólafsson úr Sigurrós á trommur og Bragi Ólafsson Purrkur með meiru á bassa, auk undirritaðs, sem að vísu er talsvert frægari en þeir tveir en sætti mig við að spila á gítar og kannski fleira af þessu tilefni.

Platan kom út í dag og er á öllum streymisveitum en kemur síðar út sem vínyll.

Frómt frá sagt, og þrátt fyrir að ég eigi hlut að máli og sé það skylt, held ég að ekki hafi komið út merkilegri plata lengi. Þrautþjálfaður lagahöfundur eins og Jón Hallur sendir þarna frá sér sitt besta efni.

Ég hef haft nægan tíma til að melta því níu ár eru liðin frá því að fyrstu upptökur voru gerðar í Sundlauginni. Strengjaútsetningar ÓBÓ eru snilld, undirleikur með ágætum og er í höndum miklu fleiri en koma fram á tónleikunum og fyrst og síðast eru lögin einfaldlega sérlega góð. Og ekki síður textarnir. Það helst í hendur.

Þeir sem ekki mæta eru … öh … hálfgerðir ratar og hanga helst í því sem þeir sjálfir/þau sjálf halda, vegna eigin grandleysis, að sé í tísku og álíta þar með gott því þeir/þau hafa enga sjálfstæða skoðun og gætu hreinlega hrokkið upp af ef þeir/þau lentu í því að þurfa að fara eigin leiðir.

Afsakið leiðindin. Ég er með Tourette. Um að gera að mæta. Ég set hlekk hér að neðan á Tidal, sem er besta streymisveitan, sem og á tónleikana. En platan er á öllum hinum streymisveitunum líka, einnig youtube.

https://www.harpa.is/vidburdir/19962