Of mikið í húfi

Þessi hugsun, þetta tilfinningalega ástand, þessi grunur, þessi vissa: Það er of mikið í húfi. Ég/við getum ekki bakkað núna. Jafnvel þótt í ljós hafi komið að rangindi voru í spili og við höfum veðjað á rangan hest.

Ég á ekki við neinar sérstakar kringumstæður og held að þessi tilfinning geti átt við um hvað sem er, bæði einstaklinga, hópa, þjóðir, heimsálfur, bandalög.

Við getum ekki skipt um skoðun. Getum ekki breytt viðhorfi okkar. Getum ekki „séð okkur um hönd“, getum ekki snúið agnarögn frá markaðri stefnu — það er of mikið í húfi.

Allt þetta lögðum við undir.

Og þá kemur viðbótartilfinning: Það er of seint. Of seint að hörfa frá vígvellinum þótt málstaðurinn sé rangur, of seint að hætta að hampa stjórnmálamanninum þótt í ljós hafi komið að hann er vafasamari en við héldum, of seint að slíta núna sambandi við ástarviðfangið og aflýsa stefnumótinu þótt sífellt skýrara hafi orðið að viðkomandi er bandvitlaus og hefur verið dæmdur fyrir alvarlega glæpi.

Það er of mikið í húfi. Það myndi ekki bara jafnast á við að játa mistök að snúast á hæli núna heldur myndum við tapa öllum þeim peningum og öllum þeim eigin trúverðugleika sem við höfum lagt undir. Við verðum bara að halda áfram og sanna að það sé samt rétt sem við höfum sagt. Það er of mikið í húfi.

Ég get ekki hætt við núna þegar ég hef kallað viðkomandi fífl opinberlega. Hvað myndi fólk halda um mig ef ég stigi fram núna og segði að hann sé kannski ekki að öllu leyti fífl og geti stundum haft rétt fyrir sér? Hvað yrði þá um samkvæmni mína? Ég verð að vera áfram í fýlu. Það er of mikið í húfi. Ég verð að afsanna með áframhaldandi gjörðum mínum það sem á móti mælir, og er sennilega rétt.

Og rangindin viðgangast. Afstaðan læsir sig um sálina eins og hún leggur sig og vonleysið blasir við þar sem fallið myndi enda.

Einhvern veginn þannig verður kreddufesta til. Hún er ekki óalgeng. Við verðum að halda reisn, jafnvel þótt það þýði að við förumst án nokkurrar einustu tignar.

Það er bara of mikið í húfi. Í samskiptunum við búðarlokuna, sendilinn sem þú hlunnfórst, ástina sem þú játaðir og sást svo eftir, hatrið sem þú viðraðir en rann svo af þér og í milliríkjadeilunum, viðskiptunum, virðingastiganum, persónulega valdataflinu, fullyrðingunum, stigveldi hópsins, þjóðarharmleikjum, yfirvofandi og yfirstandandi stríði. Of mikið í húfi.