Orðstír deyr aldrei?

Góður orðstír er vondur, ákósanlegast er að hafa slæman orðstír: Þetta er ansi róttækt hjá kýníkerunum fornu. Óttækt myndu margir segja. Alveg öndvert við íslenska hefð, eða eins og segir í Hávamálum: „Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur.“

Og næsta vísa sem sjaldnar er vitnað til:

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn
að aldrei deyr:
dómur um dauðan hvern.

Síðan kemur vísa um ósnotran mann (það er óvitran) sem eignast fé og fljóð, fyllist af metnaði og gengur fram í laundrýldni en mun aldrei nokkru sinni eignast mannvit. Þar er styttra í kýníkerana sem vara við framaþrá og þrældómnum sem henni fylgir en meðan Hávamál hafa orðstír beinlínis lykil að ódauðleikanum vara kýníkerarnir við honum.

Ætti þó ekki mannviska að verða með sama hætti ódauðleg og orðstír? Nei, þeir vara við því að vera of upptekinn af orðspori sínu meðal samtímamanna sinna þótt ekki sé endilega loku fyrir það skotið að viska þeirra verði ódauðleg, það er enda í takti við áherslu þeirra á sannleikann.

Þetta er sem sé bók sem ég hef verið að lesa, yfirlitsrit um kýníkerana, sem sumpart sviptir mann fordómum sínum gagnvart þessari fornu speki. Eiginlega vara kýníkerar sömuleiðis við skriftum. Þetta er um margt hefð munnlegrar geymdar, þótt hvort tveggja hafi gerst, að kýníkerar skrifuðu og að aðrir skrifuðu sögu þeirra.

Ég hef tekið eftir því að sumir forðast að lesa biblíuna, alla vega gamla testamentið. Það er misráðið. Maður les ekki biblíuna eins og forskrift að því hvernig eigi að lifa lífi sínu, ekki fremur en maður les Íslendingasögurnar án þess að taka tillit til anda tímans, maður fer ekki á stúfana og vegur fólk og margt gott á lesa í Íslendingasögunum. Eiginlega eru þó kýníkerarnir meira uppskrift að því hvernig er hægt að lifa lífi sínu. Hugmyndir þeirra eru ekki endilega heimspekikerfi fremur ein lífspekikerfi. Lifðu svona, þá mun þér farnast vel í þeim skilningi að þú eignast innri auðlegð.

Um margt lifir kýníkin í litlum frásögnum, tilsvörum kýníkera, í aforismum og anektdótum. Það er kannski óþægilegt að líkja sögunum um þá við Íslenzka fyndni Gunnars frá Selárlæk en þó er einhver skyldleiki þar á milli. Meðal annars sá að ekki eru allar sögur af kýníkerum fyndnar þótt þær eigi að vera það og hafi verið það í öðru samfélagi. Þar standa Íslendingasögurnar betur að vígi, fyndni þeirra hittir ágætlega í mark í dag með úrdrætti sínum og ýkjum, yfirgengilegu ofbeldi og hnyttnum orðum þar um, því við lifum í ofbeldissamfélagi einnig í dag. Hvernig Díógenes kúgar Antisþenes til að verða lærimeistari sinn og hvernig Þeófrastos lýsir því að Díógenes uppgötvaði lífsfílósófíu sína með því að fylgjast með mús sem hvorki þráði orðstír né upphefð né hjónasæng, óttaðist ekki myrkrið og sóttist ekki eftir veraldlegum gæðum sem skapa vellíðan.

Að þannig, með því að fylgjast glöggt með umhverfi sínu, geti maður ekki bara lagað sig að aðstæðum heldur lært að lifa einföldu og auðugu lífi.