Hvað sem öðru líður: Sástu annars nafnið hans í dánartilkynningunum? Hann er dauður. Ja, hreint ekki dauður, meira svona steindauður. Eins og svo margir óskuðu og eins innilega og þeim varð að ósk sinni.
Ekkert er nýtt, ekki heldur slaufunarmenningin, sem nú er á undanhaldi. Þó kunna að leynast stöku kríp sem vonar á, heitt og innilega, að einhver fjandvinur þess, einhver asni sem er hindrun á framabrautinni og má sem hæglegast saka um öfund eða eitthvað þaðan af innihaldslausara, taki sig nú til og setji höfuðið í gasofninn.
*Vona á er raunverulegt máltiltæki.
En sástu samt nafnið hans í dánartilkynningunum? Sá átti það nú aldeilis skilið sem yfir hann gekk, hann stal baunadós í smámarkaði í algeru smáþorpi í fullkomnu smálandi og fékk þá smánunaraðferð sem hann verðskuldaði. Ekkert er nýtt. Allra síst útilokun eða útskúfun. Kannski heldur einhver að smánun og útilokun sé handahófskennd og aldrei fært beint í orð en það er rangt. Fólk segir það einfaldlega hreint út að þennan eða hinn verði að útiloka til að koma í veg fyrir að mál hans nái eyrum nokkurs manns. Algerlega opinskátt og án dular.
Slaufun á sér hins vegar hlið sem felur í sér nautnina við að horfa á aðra verða fyrir ógæfu.
Enginn hefur fært þetta betur í orð en Ray Davies í laginu „Did you see his name?“ frá því korteri fyrir fornöld og það gildir nákvæmlega hið sama í dag. Tímalaus klassík. Örsaga úr hversdagslífinu, algerlega raunsæ, fjölmiðar að skotspæni og vandlæting almennings í dauðafæri, dauða, dauða, dauðafæri.