Bíslagið #5 — lokapistill í Lestinni, RUV
Það dettur margt upp úr gervigreindinni. Fyrir nokkru tók ég þátt í að þróa svokallaðan talgreini, sem sé forrit sem skrifar niður talað mál. Það var merkilegt að fylgjast með hversu hratt honum fór fram. Í upphafi skrifaði hann tómt bull eftir fólki en svo náði hann sér á strik. Strax eftir að hann varð sæmilega starfshæfur var mikil vinna að tína út villurnar sem hann gerði. Þær voru ófyrirsjáanlegar og óútreiknanlegar, villur af því tagi sem engin manneskja hefði nokkru sinni gert. Einmitt þá skrifaði talgreinirinn svohljóðandi setningu eftir ræðumanni í pontu:
„Það eru komnar nýjar aðferðir við að höndla sorg. Nú er þessu þjappað saman í litla kassa og sent til Svíþjóðar þar sem þetta er notað til að kynda hús.“
Eiginlega er þetta hrein póesía hjá forritinu, algerlega óviljandi ljóð. Ræðumaðurinn sagði „sorp“ en ekki „sorg“. Ef það væri nú hægt að virkja sorgina til að kynda hús, það væri nú eitthvað, því það er sorg í lífi allra.
Nýjungar við að meðhöndla sorg eru af skornum skammti. Þó fer eftir því við hvaða tíma er miðað. Auðvitað er auðvitað til áfallahjálp sem ekki fyrirfannst áður. Prestar voru stéttin sem hjálpaði fólki að takast á við sorg og eru það sumpart enn. Og sálfræðingar eru miklum mun fjölmennari stétt en áður var. Eitt er nýtt í sálfræði, svokölluð „sorgarröskun“. Samkvæmt skilgreiningu verður sorg að röskun ef hún varir lengur en í sex mánuði. Þá þarf að leggja fyrir fólk spurningalista og setja það svo á lyf. Það er ekki nýtt að setja sorginni tímamörk sisvona. Það sama hefur til dæmis lengi verið við lýði í kaþólskum löndum þar sem sorgarklæði eru borin. Sorgarlitirnir geta verið allt frá svörtu og hvítu yfir í fjólublátt og sorgartíminn getur verið tvö ár en var fimmtán dagar hjá Spartverjum til forna. Maður getur ekki að sér gert að þykja dálítið kyndugt að hinn frægi listi yfir andleg eymsl sem heimsveldið Bandaríkin halda — og bæta sífellt við — ákvarði það hvað sé eðlilegur sorgartími og sjúkdómsvæði sorgina að liðnum sex mánuðum. Hvað getur verið náttúrulegra en sorg? Það er ekki alveg grunlaust um að lyfjaiðnaðurinn komi þar við sögu. Það þarf að selja lyfin og þau verða að vera við einhverju og ef þetta eitthvað er ekki til er eins gott að búa það til sem snöggvast. Það má skilgreina hverja einustu spönn af mannlegri hegðun og bæta röskun aftan við það. Þó fer maður ekki út í að fordæma lyf, þau geta að sjálfsögðu bætt líðan margra og verið það sem sker á milli feigs og ófeigs.
En hvað með gömul orðtæki eins og að einhver springi úr harmi? Getur ekki sorg verið ævilöng og jafnvel riðið fólki að fullu? Er nokkur sérfræðingur svo spakur að hann geti skilgreint fyrir gervallt mannkyn hversu lengi sé „eðlilegt“ að fólk syrgi? Eru ekki aðferðirnar við að takast á við sorg mjög ólíkar á milli fólks, jafnvel svo ólíkar að það má segja að þær séu jafn margar og fólkið sem er til í veröldinni? Ég hef verið viðstaddur jarðarför þar sem afkomendur dönsuðu samba með kistuna út kirkjuganginn. Sjúkdómur hins látna hafði fyrir löngu farið með hann, gleðin og sorgin geta haldist í hendur.
En ber ekki að sýna sorginni virðingu? Jú, í sjálfu sér. Gleði þarf ekki að fela í sér óvirðingu. Þjáningin er ekki heilög í merkingunni að hinir þjáðu séu … skinhelgur páskagöngusöfnuður sem þrammar um götur með hettuskikkjur og líkneski og veitir henni veröld harðar og háheilagar átölur með fasi sínu en harðbannar alla gagnrýni um sig. Kaþólsku páskabræðralögin með sínu þaulskipulagða valdakerfi og sitt dul geta þó sum hver verið gagnrýniverð að margra mati, þrátt fyrir að hafa þjáninguna fyrir skjöld: Átta þúsund páskasöfnuðir í einu landi, Spáni, eru ekki allir eins. Það er hægt að misnota allt til göfgunar, líka þjáninguna. Það er hægt að búa til sorgarklám. Og það er hægt að takast á við sorg með jafn ólíkum hætti og að koma sér upp botnlausri kaldhæðni eða sökkva sér í vinnu.
En samt er það er hluti af mannlegri siðmenningu að sýna hluttekningu í jarðarför, jafnvel þótt maður sé ekki meðal þeirra sem stóðu næst hinum látna. Það er ekki bara kurteist að mæta í jarðarför heldur getur einskær nærveran verið nánustu aðstandendum mikilvægari en margan grunar. Það getur veitt athöfn verðskuldaða helgi, falið í sér sanna virðingu fyrir þjáningu annarra.
Á sorg eru tvær hliðar: Opinber hlið og einkahlið. Þess vegna bjuggu spænsku kóngarnir, hjónin Isabella I. og Fernando II., til reglur um klæðaburð í sorg og tíma hennar, það sneri að hinni opinberu hlið sorgarinnar. Eins og gefur að skilja hefur opinber hlið sorgarinnar í dag að miklu leyti færst yfir á samfélagsmiðla. Ákveðið fólk á vettvanginn þar sem við viðrum sorg okkar. Sorgin er notuð til að Zuckerberg græði, sorgin borgar reikningana fyrir sálarlaust fólk sem enga hefur rósemd, aðeins eftirsókn eftir vindi, og hreint allsengan náungakærleikann. Við kyndum hús ofurauðkýfinga með sorg okkar, jafnvel henni. Það kannski hljómar eins og bölmóður — og sennilega er það vegna þess að það er bölmóður. Í fjöru sem er fjarlæg sínum sígauna, í borgarastyrjöld sem háð hefur verið um árabil af hökkurum, eins og úr ljóðlínu eftir vakthafandi stýrimann, harmurinn er beinagrind sem mætir í ræktina í hvítum bolum með blettum af einsemd. Ég sakna símskeyta. Ég kann ekki við að sýna samlíðan mína á netinu. Mér finnst það nánast smán, vanvirðing.
Smyrslin sem ég hef í farteski mínu græða engin ör, ilmkerti mín gera engan ástfanginn eða gefinn fyrir háleitar hugsanir. Þau eru bara ágrip af sögu sorgarinnar. Þau smyrsl sem helst eru notuð í dag eru fimm þrep sorgarinnar. Þau eru: Afneitun, reiði, depurð, uppgjör og sátt. Síðastnefnda stigið merkir ekki að fólk sé ánægt með stöðuna en það leitast við að sætta sig við hana og halda áfram. Þessi þrepaskipting er eftir svissnesk/bandarískan sálfræðing sem nefndist Elisabeth Kübler-Ross og kom út í bók hennar um dauðann árið 1969. Það kemur kannski einhverjum á óvart að sérsvið hennar var ekki neitt tengt neinni huggun heldur rannsóknir á reynslu þeirra sem hafa farið á barm dauðans eða örlítið fram yfir hann. Kübler-Ross sem sé rannsakaði dauðann. Næsta nágrenni dauðans. Þar sem fólk fer út úr líkamanum og horfir á sjálft sig ofan frá, þar sem fólk sér göng og fólk sér ljós og fer til ljóssins. Þetta er auðvitað umdeilt svið. Sennilega umdeildara í dag en nokkru sinni fyrr, upplýst fólk á erfiðara með að trúa að það sé kall í hvítum kufli uppi á skýjunum sem hafi skapað veröldina og efnishyggjan leysir málið auðveldlega: Sá sem deyr er dáinn og ekki til lengur. Fremur hefur dregið úr þessum rannsóknum en hitt undanfarna áratugi.
En hvað þykist efnishyggjufólkið vita? Fáir neita því að sálfræðin skuldar stóuspekinni harla mikið og skammtafræðin og heimsfræðin og geimvísindin hafa sýnt fram á að til eru miklu fáránlegri fyrirbæri en karl í hvítum kufli sem situr á skýi umkringdur vængjuðum verum sem spila á hörpu. Af hverju býr trúarþörfin í mannshuganum ef endimark hennar er ekkert nema fáránleiki? Ég heimta elítisma fyrir alþýðuna, strax. Hvað getur verið vísindunum merkilegra rannsóknarefni en dauðinn? Við sem sannarlega tilheyrum alþýðunni og eigum þar með elítismann með húð og hári óskum hinum ferköntuðu alls hins besta en mikið væri gaman ef þeir tækju út örlítið minni kvalir þá sjaldan að þeir neyðast til að segja satt og vera einlægir og hættu að ljúga fólskulega að sjálfum sér. Hvernig væri að stara bara lóðbeint og undanbragðalaust inn í innstu myrkur?
Gæti ég ekki talað um eitthvað skemmtilegra? Tja, ég er þó ekki að tala um Trump. Ég hef engin smyrsl í minni vörslu. Ég er ekki haldinn hugleysi þeirra sem stöðugt óttast að nefna harminn sínu rétta nafni eða segja orðin: Nei, eða: Ég veit það ekki. Ég les ekki bókmenntir sem segja mér allt sem ég veit fyrir svo ég geti orðið örlítið meira drýldinn í fullvissu minni um andskotann ekki neitt. Er þá ekki betra að þegja meira en maður segir og þegja þá fremur satt? Fimmtán millímíkrósekúndur af frægð eru lítils virði á jarðsögulegum tíma, þótt fólk glati fyrir frægðina sálinni, rósemdinni og um síðir sjálfum vindinun sem það eltist við og endasendist alltaf ósýnilegur á braut. Mér reiknast til að venjuleg manneskja geti verið haldin sorg í 183 dagar og 19.466 nætur um ævina. Mér reiknast svo til að það sé hægt að skrifa sig frá sorginni. Mér reiknast svo til að það geti verið ævistarf og hafi einmitt verið það í mínu tilfelli, frá blautu barnsbeini. Mér reiknast svo til að um síðir komi það sem heitir „alivio de luto“ á spænsku og merkir að sorg sé aflétt, það er að segja opinberri hlið hennar. Mér reiknast svo til að ég láti ekki frá mér stakt hryggðar- eða huggunarorð opinberlega nokkru sinni framar. Ég á ekki lengur orð. Það á enginn orð.