Ástæðurnar fyrir því að Svarti listinn (The Blacklist) nær ekki að verða nema næstum-því afburðagóð sería, á þeim tímum þegar skáldskapurinn heldur til í sjónvarpsseríunum og dafnar best á því formi, eru nokkrar. Í fyrsta lagi geta ekki allar seríur verið afburða. Í öðru lagi þarf meira til en leikara eins og James Spader, en hann er það sem heldur seríunni á köflum uppi einn síns liðs.
Upphafssenan er nákvæmlega eins og sena í kvikmyndinni Seven. Stórglæpamaðurinn Raymond Reddington gefur sig fram og er svellkaldur í því ferli. Hann vill ekki ræða við nema eina manneskju, Elisabeth Keen, ungan og lítt reyndan mannlýsara hjá FBI sem Megan Boone leikur. Og þar er komin þriðja ástæðan fyrir því að þættirnir ná ekki þeim hæðum sem þeir hefðu getað náð. Megan Boone er síður en svo afleitur leikari, hún er bara ekki réttur leikari í rulluna. Karakterinn skín í gegn frá handritinu. Maður sér fyrir sér manneskju með línur í andlitinu, ögn eldri en Boone, ögn eldri sál, ögn skemmdari í útliti og orðahljóman.
Stundum ræður Spader ekki alveg við sinn karakter heldur: Illmennið sem veit allt og kemur ekkert á óvart og kippir sér ekki upp við nokkurn skapaðan hlut. Hann er látinn hlæja í handritinu eða leikstjórninni þegar hann á ekki að hlæja. Það fer þeim mun meira í taugarnar á manni því maður þykist vita að á þessum (fáu) stöðum komi í ljós það sem karakterinn hefði getað orðið í meðförum leikarans, sem gerir þetta ansi vel samt. Hann býr til mjög eftirminnilegt og skemmtilegt illmenni í mörgum víddum.
Það er farið í gegnum svartan lista af glæpamönnum af því taginu að enginn veit að þeir eru til og Reddington vegur salt á milli þess að vera með öllu siðlaust illmenni og þess að hafa göfugar víddir, jafnvel allnokkra réttlætiskennd. Keen á eiginmann sem virðist svo góður að hann gæti setið á lopapeysu í til þess að gera íburðarmikilli skrifstofu og rausað endalaust um forréttindablindu annarra og eitraða karlmennsku og um tengslanetið sitt sem er goðgá að kalla klíkuskap án þess að vera neitt sérlega æpandi hræsnari, allt gæti verið satt og rétt og einlægt hjá honum, hversu sem hann seildist í klisjubankann. Hann er kennari og láglaunaþræll og þótt hver þáttur afmarkist af einu illmenni af svarta listanum er framhaldsplott í því fólgið að í þráhyggju sinni um Keen er Reddington umhugað að sannfæra hana um að eiginmaður hennar sé meira en lítið vafasamur. Ryan Eggold gerir persónu Tom Keen góð skil, sakleysið uppmálað, en fyrir utan þessar þrjár persónur er varla hægt að segja að til sé að dreifa persónum sem nái eftirtekt.
Ég vildi óska að James Spader sleppti þessum fáu augnablikum þar sem hann er of mikið í karakter til þess að það sé trúverðugt og ég vildi óska að Megan Boone væri hreinlega önnur leikkona en hún er og ég vildi óska að handritshöfundarnir væru ögn útsjónarsamari og ögn næmari á hið óvænta en þrátt fyrir þetta eru þættirnir meira en þess virði að horfa á þá. Þeir ná ekki hæðum allra bestu framhaldsþátta en samt, þeir ná að vera eiginlega frábærir. Og það nægir.