Þrælar

Ég lét gabba mig. Eða ekki beinlínis gabba, smáræðis sviðsetningaratriði í sjónvarpsþáttum leiddi mig afvega. Sjónvarpsþættirnir voru Roots, Rætur. Þeir voru sýndir í sjónvarpinu korter í fornöld, á þeim sæludögum þegar við vorum bekkurinn í hippaskólanum Fossvogsskóla og kennarinn var Sverrir Guðjónsson, kennari lífs míns sem bjargaði eitt sinn lífi systur minnar, og við sátum saman í svokölluðum heimakrók og lásum allskonar bækur hvert fyrir annað og kynntumst allskonar menningu og hugmyndum og ræddum allt milli himins og jarðar. Þetta var frjáls akademía. Aginn var miklu minni en í öllum öðrum skólum, eða jafnvel bekkjum, því Sverrir var einstakur kennari og enginn harðstjóri, þótt hann hefði lag á að koma á kyrrð þegar þess þurfti.

Ég var bekkjarskáldið. Ég las upp ljóð fyrir bekkinn. Dóra var bekkjar-rebellinn og við höfðum þekkst frá því við vorum eins árs og bjuggum hlið við hlið. Kannski tók ég rasismann enn meira inn á mig en aðrir og fékk hann gersamlega á heilann. Ljóðin urðu til höfuðs rasisma. Það var eðlilegt að álykta að Íslendingar væru rasistar. Sem þeir eftir á að hyggja voru ekki svo mjög vegna algerrar einsleitni þjóðarinnar. Þeir voru meira xenófóbar. Spánverjavígin stöfuðu ekki af kynþáttahyggju heldur stjórnlausum ótta við hið óþekkta. Sjónvarpsþættirnir Rætur hófust á því að hvítir gerðu strandhögg í litlu ríki í Afríku og tóku þar herskildi þræla og settu þá um borð í skip og sigldu með þá til Ameríku. Með ofbeldisárás á lítið þorp og mannráni.

Málið er að þótt þetta hafi kannski stundum hent var hinn algengasti veruleiki frábrugðinn. Þrælar voru ekki teknir með árásum heldur einfaldlega keyptir á þrælamarkaði. Þrældómur var hvarvetna og nóg til af slíkum mörkuðum í Afríku. Hinum megin í álfunni stunduðu Arabar þrælaviðskipti af kappi og það var ekki eins og á Íslandi þar sem víkingar gerðu strandhögg og tóku írska þræla, sem voru líka stundum keyptir, heldur var þetta að mestu leyti frjáls samkeppni. Svo mikið var valið og viðskiptafrelsið í Afríku að ákveðnir hjartasjúkdómar urðu algengari meðal svartra í Bandaríkjunum en á nokkrum öðrum stað. Ástæðan var sú að kaupendurnir sleiktu enni þrælanna áður en þeir festu kaup á þeim og ef ákveðið mikið saltbragð var af þeim voru þeir líklegri til að lifa af ferðina yfir hafið en ella. Hending réði að þetta saltbragð hélst í hendur við hjartagallann.

Ég var fráleitt sá eini sem fékk þessa sögulegu villu upp úr þáttunum. Kannski hefur hann haft stórkostleg áhrif á söguvitund margra kynslóða. Þar með er ekki sagt að innlegg þáttanna um sögu svartra hafi verið ómerkilegt, það er einfaldlega dramatískara að byrja á mannráni en markaði, en ýmsir hlutar sögunnar falla smám saman í gleymsku í samspili við þetta. Það þykir góð hugmynd að staða svartra hafi stöðugt farið batnandi og heyja þurfi baráttuna áfram til að svo verði enn. Staðreyndin er samt sú að staða svartra var að mörgu leyti miklu betri árið 1950 en hún er í dag. Þetta helst í hendur við fall bandarískrar millistéttar með framrás frjálshyggjunnar. Árið 1950 var hægt að lifa sæmilegu lífi á því að vinna í verksmiðju við færiband og maður gat keypt sér hús, hvernig sem maður var á litinn. Nú þegar staðan er nær því að eitt prósent bandarísku þjóðarinnar eigi meira en 90 prósent samanlögð leiðir af sjálfu að lágstéttin er líklegri til að vera allur þorri þjóðarinnar, millistéttin hverfandi, milljónamæringarnir slatti og svo hinir nýju súperofurgígaríku sem eiga nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Með hvarfi millistéttarinnar hverfur líka möguleikinn á því að hugsa krítískt. Það þarf tíma til að hugsa. Millistéttin hafði hann.