Þriðji maðurinn

Mest sit ég hér nýfluttur og horfi á veggina og velti fyrir mér litum. Dugnaðurinn er ekki í hámarki. En ég hef valið lit á einn vegginn, gulan lit sem gengur undir nafninu Gullgrafarinn. Eða eins og ég skil það á ensku: Gullgrafari í merkingunni manneskja sem leitast við að komast yfir fé með því að næla sér í ellibelg af öðru kyni og erfa hann eða hana svo, oftar hann. Hvenær ætli merking orðsins hafi breyst svona drastískt?

***

Ég þarf líka að gera ýmislegt annað og vinna þar að auki, helst meira en hlutastarfið því ég lifi á tröllauknum yfirdrætti sem ég fékk fram með hinu íslenska feikaða sjálfstrausti, með því að láta eins og ég væri stórbokki í banka. Bráðum kemur í ljós hvort þessi vinnutilhögun listamennsku og prófarkalesturs gengur áfram upp, því til er nokkuð sem heitir listamannalaun sem á það sameiginlegt með ákveðnum stjórnmálamanni sem nú ber hátt að best er að nefna ekki fyrirbærið og hugsa sem allra minnst um það. Þess í stað útbý ég bæði tónlistargreni á háaloftinu og kvikmyndagreni. Og bý mig undir að mála veggi.

***

Þar sem kvikmyndagrenið er ekki tilbúið horfðum við á Þriðja manninn hér niðri, í rýminu sem ekki er ætlað börnum og dvergum. Það er langt síðan ég sá hana síðast en frá fyrstu mínútu rifjast upp að tónlistin er einhver sú eftirminnilegasta í allri kvikmyndasögunni. Best man maður eftir eltingaleiknum í holræsakerfinu, laginu góða og Harry Lime. En þeirri tilhögun eftir stríð í Vínarborg að borginni var skipt á milli fjögurra ríkja með alþjóðasvæði í miðjunni var stolið úr manni. Og myndrænu áhrifin, sem við feðgar tveir, ég og sá yngsti, höfum legið mikið yfir vegna kvikmyndaáhuga hans — þau eru svo gersamlega þaulreynd að öll trixin í bókinni eru notuð og miklu fleiri til. Orson Wells í skugganum, ferð þeirra æskuvina í Parísarhjólinu, hversu góður leikari höfundurinn var, notkunin á skuggum, endurtekin stef, aukapersónur á borð við húsfrúna í byggingunni þar sem kvenhetjan býr, karlhetjan, sem eiginlega er aðalhetja myndarinnar — maður mundi þetta ekki, bara ákveðna stemmningu sem sat föst í manni. Og ekki rámaði mig í að karlhetjan væri höfundur glæpasagna og vestra og væri snupraður af bókmenntaáhugafólki fyrir að vita ekkert um James Joyce. Glæpurinn, hversu næm lýsingin er á eftirstríðsárunum og andrúmslofti þeirra, tímalausar spurningarnar, allt gleymist. Þetta er skylduáhorf aftur og aftur með reglulegu millibili. Öll börn eiga að sjá þessa mynd. Sonur minn minnti mig á að ég hefði nefnt hana og við ætlað að horfa á hana. Skil ekkert í mér að hafa ekki gert það fyrr.