Um spaugilegar hliðar siðblindu

Auðvitað er siðblinda per se ekkert spaugileg, svona í augum þeirra sem verða fyrir barðinu á vondum verkum sem stafa af henni. Og stundum getur verið þreytandi að horfa á efni eða lesa bók sem gengur út á spaugilegar hliðar siðblindu, jafnvel þótt maður þekki fólk sem maður álítur siðblint, eða haldið vægri siðblindu, og kjósi að horfa á spaugilegu hliðarnar í fari þess fólks, þótt maður myndi kannski ekki treysta því fyrir lífi sínu, eða einu sinni fyrir að gefa kettinum að éta. Ég á engan kött.

Better Call Saul er Netflix-sería sem ég hef lengi slegið á frest að horfa á. Nýverið kláraði ég loks Breaking Bad að áeggjan sona minna og það er rétt sem þeir segja, þetta er með bestu seríum sem gerðar hafa verið. Better Call Saul byggir á aukapersónu í Breaking Bad, er spin-off þar sem bakgrunnur siðlausa lögfræðingsins er kannaður, forsaga hans. Siðblinda hans er ansi fyndin. Hann er liðugur í kjaftinum og krítar stöðugt, hefur engin gildi og enga sannfæringu. Hann er svo snöggur til að grípa sennilegar rasjónalíseringar að það getur verið neyðarlegt á þann hátt sem kallar fram hlátur. Fyrsta mál seríunnar er skrautlegt. Fyrst fáum við hann skýra mál skjólstæðinga sinna, þriggja ungra manna, unglinga. Í fyrsta lagi brutust þeir ekki inn, segir hann, því staðurinn sem þeir fóru inn á er sagður opinn allan sólarhringinn. Í öðru lagi gerðu þeir engum mein, enginn skaðaðist. Hvert er þá málið? Sýknið þessa drengi. Voruð þið ekki einu sinni nítján ára og tókuð heimskulegar ákvarðanir? — Jú, þetta gæti vel staðist, hugsar maður. Síðan dregur sækjandi fram sjónvarp og kveikir orðalaust á upptöku úr eftirlitsmyndavél. Jú, sennilega má segja að þarna sé opið allan sólarhringinn því þetta er líkhús. Sennilega má segja að þeir hafi engum gert mein og að enginn hafi skaðast, aðrir viðstaddir eru lík. En staðreyndir máls eru svo yfirgengilegar að þær framkalla hinn þvingaða hlátur. Þeir sem sé tóku sög og söguðu höfuðið af líki. Þvínæst höfðu þeir samfarir við höfuðið.

Úff. Hló ég?

Og svona á dýptina litið: Hvað nákvæmlega er það sem gerir að siðblindi lögfræðingurinn fer ekki með alveg ærlegt mál?

Ennþá fyndnara er næsta sena þar sem lögmaðurinn verður fyrir tveimur bræðrum sem sviðsetja slys með því að renna sér á hjólabretti fyrir bílinn hans og setja upp sjónarspil og reyna að hafa af honum peninga. Hann sér í gegnum það en ræður þá til að gera það sama við fórnarlamb sem hann vonast til að verði viðskiptavinur. Það gengur í sjálfu sér ljómandi vel en þeir fara bílavillt og fórnarlambið er öldruð kona sem stingur af frá vettvangi en reynist svo vera ættmóðirin í mafíufjölskyldu þar sem það er jafn lítið mál að drepa fólk og að skera ost.

Ég er ekki kominn langt en vel getur verið að synir mínir, já og ég held að dóttir mín hafi líka nefnt þetta þegar ég borðaði með henni, hafi rétt fyrir sér og Better Call Saul sé enn betri en Breaking Bad.