Afsökunarbeiðni

Þegar eitthvað er rekið ofan í mann sem rangfærsla biðst maður einfaldlega afsökunar.

Ég bið Bjarna Bjarnason og alla aðstandendur skáldsögu hans Dúnstúlkan í þokunni afsökunar fyrir að hafa farið í færslu minni frá 1. janúar rangt með að Bjarni hafi í birtum rannsóknum sínum fullyrt að rannsókn Ágústs H. Bjarnasonar hafi verið fyrsta dulsálarfræðirannsóknin á Íslandi, sem sé rangt.

Nánar tiltekið sagði ég:

„Eitt er að Bjarni fullyrðir að um sé að ræða fyrstu dulsálarfræðirannsóknina á Íslandi, sem er ekki rétt, Drauma-Jói hafði verið rannsakaður áður (og ekki þarf að spyrja hér hver það gerði).“ (1. janúar)

Þetta er ekki rétt. Í grein sinni í Ritinu rekur Bjarni skilmerkilega rannsókn þeirra Guðmundar Hannessonar, Guðmundar Finnbogasonar og Snæbjarnar Arnljótssonar, verslunarstjóra á Þórshöfn, eins og lesa má frá blaðsíðu 237 og yfir á blaðsíðu 278 í Ritinu sem um ræðir.

„Tími leiðréttinganna er liðinn,“ hafði spænski rithöfundurinn Javier Marías að orði fyrir allnokkru. Það er mikilvægt að taka ekki þátt í þeirri þróun, þeirri algeru afneitun á minnsta möguleika á hlutlægni, á sannleika. Afneitun á því að það hafi nokkuð upp á sig að leiðrétta rangfærslur.

Ástæða þess að mig minnti þetta er að grein Bjarna ber undirtitilinn „Fyrsta dulsálarfræðirannsóknin á Íslandi könnuð og lykkju við hana bætt“. Þetta er síðan reyndar tekið upp í auglýsingum um bókina og með talsverðum rétti. Ástæða þess að Bjarni tekur svo til orða er sú að rit Ágústs „byggðist á fyrstu fræðilega viðurkenndu rannsókninni sem framkvæmd var hér á landi á sviði dularsálfræði“, eins og hann segir sjálfur í grein sinni. Rétt skal vera rétt. Þá má reyndar bæta við að Bjarni hefur síðan komist að fleiru um Drauma-Jóa áður en hann skrifaði skáldsögu sína. Bróðir minn mun hafa tekið viðtal við hann, sem ég heyrði ekki né vissi um, og þeir rætt það sem mesta athygli bróður míns vakti við lestur bókar Ágústs. Ef Bjarni hefur ekki veitt því athygli áður sagði bróðir minn honum það beinlínis.

Þá er auðvitað önnur rannsókn, vetrarlöng rannsókn Guðmundar Hannessonar, langafa okkar bræðra, sem er efni skáldsögu minnar Millibilsmaður, á Indriða miðli og starfsemi Tilraunafélagsins, en jafnt þótt hún hafi verið vísindaleg og krítísk af hálfu Guðmundar og skýrsla um hana jafnvel verið þýdd á ensku, auk þess að verða efni í blaðagreinaflokk Guðmundar, er óvíst að hún hafi verið viðurkennd sem vísindaleg rannsókn. Reyndar er það ólíklegt. Enska tímaritið sem birti niðurstöðurnar sem fræðimennsku hefur varla notið almennrar vísindalegrar viðurkenningar, enda ekki óvilhalt. Ekki vottfest, svo notað sé orðalag Ágústs. Það voru áhöld um hvað vísindi væru, og eru enn, að Erlendi Haraldssyni gengnum, blessuð sé minning hans, er engin staða við dulsálarfræði við Háskóla Íslands.

Það er óvíst að Guðmundi Hannessyni hafi langað til að rannsóknir hans á Indriða miðli yrðu viðurkenndar sem vísindarannsóknir. Óvíst að niðurstöðurnar hafi verið honum alveg að skapi eða það sem hann bjóst við að finna, húmbúkk og fals. Þannig er ekki skrýtið að í frábærri bók sem Karlotta Blöndal ritstýrir og stendur að, Rödduðu myrkri, og hefur að geyma uppritanir á fundargerðum Tilraunafélagsins, auk ritgerða, álykti Benedikt Hjartarsson, bókmenntafræðingur, í ljómandi grein að Guðmundur Hannesson hafi verið fyrirfram trúaður á miðilsgáfu og fúslega veitt tilraunamennskunni atbeina sinn og ljáð nafn, en þegar betur er að gáð (eða ef svo vill til að maður er alinn upp við þessa sögu eins og ég og spyrji bara mömmu sína og ömmu) verða hlutirnir ögn flóknari en þeir virðast af birtum heimildum. Mér þótti sem snöggvast að Bjarni hefði fallið í sömu gryfju og álitið Ágúst fyrirfram sannfærðan, sem er skiljanleg ályktun en ekki tilfellið. Hann af-sannfærðist ekki bara löngu síðar, eins og Bjarni segir í greininni, heldur var hann með allra tortryggnustu mönnum fyrirfram, trúin eins og hver annar útúrdúr sökum leiða á því að vera óvinsæll meðal spíritista á borð við Einar Kvaran. Svo mikið fór ég alla vega ekki rangt með. Ég geri ráð fyrir að Bjarni hafi lesið þau skrif Ágústs eftir að hann birti fræðaskrif sín. Og reyndar allsendis óvíst að það skipti nokkru máli fyrir skáldsögu Bjarna. Þar að auki hef ég ekki lesið hin bréfin sem Drauma-Jói skrifaði til Ágústs, þótt ég viti hvar þau eru.

Síst af öllu á maður að tjá sig um bækur sem maður hefur ekki lesið. Hverjum dettur slíkt í hug? Hvílík firra! Þótt maður hafi lesið fræðiskrif sem komu á undan skáldverkinu. Ég stend við það sem ég sagði í fyrri grein að ég hlakka mjög til að lesa skáldsögu Bjarna, enda má nærri geta að efnið höfðar til mín. Ég ítreka afsökunarbeiðni mína fyrir rangfærslur.

Er annars til eitthvað merkilegra rannsóknarefni fyrir hvers kyns fræði en dauðinn og hvað tekur við eftir hann og handan við skilvitin? Ef fræðin sinna því ekki tekur skáldskapurinn við. Því skáldskapur og fræði eru miklum mun ólíkari en fræðimenn halda stundum fram.